Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 11:09:42 (4889)

2003-03-13 11:09:42# 128. lþ. 99.11 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[11:09]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar við erum að tala um mengun vegna gróðurhúsalofttegunda er það ekki út frá samkeppnissjónarmiðum, heldur út frá mengunarsjónarmiðum. Það er þess vegna sem þetta ákvæði er inni í frv., ef við erum að tala um að skattleggja mengun gildi það um öll fyrirtæki. Það hefur stundum verið kallað jafnræðisregla.

Það getur vel verið að ég skilji ekki hv. þingmann og það sé kannski vandamálið í þessari umræðu, en það sem ég var að tala um áðan og mér fannst gæta misræmis hjá hv. þingmanni er það að annars vegar eru jafnræðissjónarmið í hávegum höfð og hins vegar ekki. Það er það sem ég gerði athugasemd við og hún svaraði ekki þeim athugasemdum mínum.