Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 12:32:07 (4905)

2003-03-13 12:32:07# 128. lþ. 99.11 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[12:32]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Varðandi vægi áls í efnahagsbúskap okkar þá verða menn að hafa í huga að ólíku er saman að jafna, þessum eina málmi, tiltölulega einsleitri framleiðslu sem ræðst á heimsmarkaði út frá einni viðmiðunartölu svipað og með olíu, tiltölulega einsleita vöru, og hins vegar öllum okkar fjölbreytta sjávarútvegi sem samanstendur af ótal mörgum tegundum og dreifir þeim á marga markaði sem ekki sveiflast allir í einu o.s.frv. En álið er bara þessi eina staðlaða vara á heimsmarkaðsverði. Það heimsmarkaðsverð tengja menn beint inn í þessa raforkusamninga. Þannig eru menn að búa til sveiflumöguleika sem eru algerlega ósambærilegir við sjávarútveginn.

Jú, það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þm. að upp að vissu marki gæti verið ágætt að hafa framleiðslu af þessu tagi en einnig sem fjölbreyttasta á öðrum sviðum. Það verður alla vega ekki fram hjá því litið að orkubúskapur landsmanna verður orðinn svo geigvænlega tengdur sveiflum á verði áls á heimsmarkaði að engu tali tekur. Ég efast um að menn finni önnur dæmi í heiminum um að orkumarkaður í einu landi sé þannig uppbyggður að 80% orkunnar fari í það að bræða þennan eina málm og endurgjaldið af raforkunni ráðist af sveiflum á heimsmarkaðsverði á þessum málmi. Það er mjög ískyggilegt, herra forseti, burt séð frá öllu öðru í þessum efnum.

Verðið er lágt. Það þýðir ekki að mæla á móti því að verð niður í 1,20--1,40 kr. á kílóvattstund er auðvitað lágt. Það er auðvitað algjört útsöluverð á orku borið við það sem almenni notendamarkaðurinn greiðir. Fram hjá því verður ekki litið. Það var það sem ég vísaði til þegar ég talaði um að maður hefði efasemdir um hversu góður bisness þetta væri.