Kjör bænda

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 13:30:51 (4908)

2003-03-13 13:30:51# 128. lþ. 99.94 fundur 499#B kjör bænda# (umræður utan dagskrár), Flm. SJóh (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[13:30]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það vakti mikla athygli þegar núv. hæstv. landbrh., sem þá var hv. formaður landbn. Alþingis, lét svo um mælt skömmu fyrir síðustu kosningar að vinnubrögðum landbrn., sem þá var undir stjórn hæstv. landbrh. úr hans eigin flokki, Guðmundar Bjarnasonar, mætti líkja við hraða snigilsins.

Nú hefði maður haldið að þegar þessi hv. þm. væri svo gerður landbrh. mundi þetta aldeilis breytast til batnaðar. En því miður hefur lítið breyst við tilkomu hæstv. núv. landbrh. inn í það embætti, a.m.k. hefur hraðinn ekki aukist. Sumir hafa haft á orði að nú væri snigillinn sofnaður eða dottaði a.m.k. mestan partinn. Aðrir hafa látið að því liggja að hann væri kannski dauður og best væri að taka landbúnaðarmálin undir annað ráðuneyti sem væri ekki alveg eins seinfært í göngulagi sínu.

Það vantar ekki að hæstv. ráðherrann hefur farið mikinn sem skemmtikraftur. Það þykir varla burðugt þorrablót þar sem hæstv. ráðherra heldur ekki ræðu og fer með gamanmál við miklar vinsældir. Hann er bestur á þorrablótunum, eins og sjálf sauðkindin. (Gripið fram í.)

En aðgerðir til að bæta hag starfandi bænda í landinu hafa látið á sér standa og nú er svo komið, hæstv. forseti, að vonir okkar sem höfðum reiknað með að aðgerðir til að bæta stöðu þeirra sem starfa í landbúnaði á Íslandi sæju dagsins ljós á þessu kjörtímabili eru nánast að engu orðnar. Þingið er hér á síðustu metrunum og kosningar eru þann 10. maí. Þar væri þó vissulega ástæða til að taka til hendinni.

Í síðasta tölublaði Vísbendingar leggja nokkrir nemar í MBA-námi í Háskóla Íslands fram útreikninga um kjör bænda á Íslandi og eru þeir útreikningar gerðir eftir búreikningum árið 2001. Þar kemur fram að meðaltal hagnaðar af rekstri sauðfjárbúa fyrir laun eigenda jafngildir því að launin séu að jafnaði 68.250 kr. á mánuði. Samsvarandi útreikningur á launum fyrir rekstur meðalkúabús jafngildir 165.750 kr. á mánuði. Sé litið til blandaðra búa er meðalafkoman 96.617 kr. á bú. Það munu að jafnaði vera tveir einstaklingar, þ.e. hjón, á bak við þessar tekjur svo að til að fá út launin á mann þarf að deila í niðurstöðuna með tveimur sem mundi þá svara til 34.125 kr. fyrir hvorn aðilann á sauðfjárbúinu, 48.308 kr. á blandaða búinu og 82.875 kr. á mann á kúabúinu.

Það er ljóst af þessum tölum að afkoma bænda í íslenskum landbúnaði er afar slök, sérstaklega á sauðfjárbúunum, og það þrátt fyrir að beingreiðslur og styrkir vegna búvöruframleiðslu á Íslandi hafi á því herrans ári 2001 numið 5,7 milljörðum kr. samkvæmt útreikningum frá OECD sem fylgja með í þessari grein Vísbendingar. Þetta hlýtur að kalla á vangaveltur um hvort ekki megi koma þessum styrkjum með beinni hætti til bænda, t.d. í formi stuðnings við atvinnuvegi í sveitum, því að það má ljóst vera að bændur á smærri og meðalstórum búum lifa ekki af búrekstrinum einum saman. Ef við teljum, sem ég vona að allir séu sammála um, að brýnt sé að halda landinu sem mest í byggð tel ég að hvort tveggja þurfi að koma til, breyta þurfi fyrirkomulagi á styrkjum til landbúnaðar þannig að þeir verði byggðatengdir og að styrkja þurfi enn frekar uppbyggingu atvinnulífs í sveitum.

Ég vil því beina eftirfarandi spurningum til hæstv. landbrh.:

Til hvað ráða hyggst hæstv. landbrh. grípa til að bæta kjör bænda?

Er von á einhverjum aðgerðum til að bæta starfskjör í landbúnaði fyrir kosningar?