Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 16:26:35 (4947)

2003-03-13 16:26:35# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[16:26]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Mér finnast þetta alveg forkastanleg vinnubrögð. Við erum inni á Alþingi, fulltrúar allra þingflokka. Í nefndinni er hægt að kalla til alla þá aðila sem hv. þm. var að nefna og á að skipa í nefnd. Það er ekkert að vanbúnaði til þess að vinna þetta frv. upp. Þarna eru meginþættir sem lúta að notkun raforku í landinu, þ.e. dreifing, rekstur á dreifikerfum og verð. Lagt er ofurkapp á að koma því eina ákvæði sem er í frv. um að einkavæða orkuver. Er það það eina sem rekur menn áfram? Mér finnst, herra forseti, að það gæti svo rækilega beðið. En að slá á frest með þessum hætti hér öllu sem lýtur að neytendum í landinu er fullkomlega óábyrg vinna.

Herra forseti. Í ofanálag er svo sagt hér með miklum hroka:

,,Nefndin skal skila tillögum sínum í formi lagafrumvarps til iðnaðarráðherra eigi síðar en 31. desember 2003.``

Eins og hv. þm. komst að orði áðan fellur þessi réttur úr gildi og ákvæði laganna verða virk ef ekki verður búið að skila samkomulagi eða frv. fyrir þennan tíma. Af hverju má ekki bara snúa því við, þ.e. verði ekki komið samkomulag og lög sem taka á þessum grundvallarþáttum raforkumála í landinu fyrir 30. desember falli allt frv. niður og byrjað verður upp á nýtt? Það væri miklu sanngjarnara gagnvart íbúum þessa lands og notendum rafmagns.