Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 18:58:10 (4971)

2003-03-13 18:58:10# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, AHB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[18:58]

Adolf H. Berndsen:

Herra forseti. Því er ekki að leyna að það mál sem hér er til umræðu veldur mér áhyggjum. Það er búið að koma inn á mörg þau atriði sem ég vil nefna en ég vil þó fara áfram yfir þau.

Ég verð samt að byrja á því að segja að margt jákvætt hefur unnist sem snýr að byggðamálunum í tengslum við jöfnun húshitunarkostnaðar, svo ég nefni dæmi, þar sem iðnrh. og ríkisstjórn hafa staðið myndarlega að hlutunum. Það hefur haft jákvæð áhrif með því að niðurgreiða raforku til húshitunar á svokölluðum köldum svæðum. Þetta er mjög jákvætt mál og rétt að halda því til haga í allri umræðu.

Varðandi það mál sem hér er til umfjöllunar er því ekki að leyna að ég deili þeim áhyggjum sem hér hafa komið fram um hvernig skilið er við það. Það hlýtur að gefa augaleið að valdið liggur hér á Alþingi, að taka á þessum málum sem hér er verið að nefna. Ég hef áhyggjur af stöðu landsbyggðarinnar í hinni svokölluðu 17 manna nefnd. Ekki að ég vefengi einstaka menn sem þar kunna að koma að málum en ég er búinn að vera það lengi í sveitarstjórnarmálum að ég hef séð að það er ekki alltaf sjónarmið hinna dreifðu byggða sem verður ofan á, jafnvel þótt það sé af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þess vegna finnst mér ábyrgðarhluti að skilja við málið svona. Það er búið að hafa langan aðdraganda, búið að vera í kynningu hér og umræðu og mér finnst nauðsynlegt að því verði lokið hér á hinu háa Alþingi.

Ég er talsmaður samkeppni en ég get hins vegar ekki leynt því að ég tel að hún eigi ekki alls staðar við. Ég hef áhyggjur af því varðandi þessi nýju raforkulög að þar verði henni ekki alls staðar komið við og það verði að tryggja númer eitt, tvö og þrjú stöðu hinna dreifðu byggða gagnvart jöfnun. Það þarf fjármuni til þess og það er stjórnvalda og hins háa Alþingis að tryggja þá fjármuni. Ég ítreka að mér finnst að það eigi að liggja fyrir hér áður en þetta mál er afgreitt hvernig menn ætla að lenda því.