Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 20:58:32 (4997)

2003-03-13 20:58:32# 128. lþ. 100.28 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[20:58]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir hinar ögrandi spurningar en mér þykir hagfræði Vinstri grænna afskaplega merkileg. (Gripið fram í: Götótt.) Ekki vil ég nú segja götótt. Mér finnst hún bara merkileg. Vinstri grænir halda því fram að það að auka útflutningsverðmæti þjóðarinnar allverulega feli í sér auknar líkur á að hér verði óstöðugleiki. Þetta er það sem hv. þm. kallar hagfræði Framsóknarflokksins. Það er þó gaman fyrir Framsfl. að eiga skoðanabræður meðal hagfræðinga í röðum ASÍ, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins, greiningardeilda bankanna, Seðlabankans og þannig má áfram telja. Ég held að grundvallaratriðið í allri hagfræði sé að auka verðmætin í atvinnulífinu, auka útflutningsverðmæti þjóðarinnar og skapa þannig grundvöll að því að reka velferðarkerfi. Þetta er hin merkilega hagfræði sem hv. þm. er að fjalla um.

Þar að auki held ég að allir hagfræðingar, nema þeir sem hv. þm. Ögmundur Jónasson umgengst, séu sammála um að því fleiri sem stoðirnar undir efnahagslífi okkar eru því minni líkur séu á óstöðugleika.

Sjávarútvegurinn hefur haldið uppi efnahagslífi okkar og hann fylgir að sjálfsögðu náttúrulegum sveiflum. Efnahagslíf okkar verður líka fyrir áhrifum af þessum sveiflum. En með því að hafa fleiri en eina stoð, hér er álið nefnt og vonandi koma enn fleiri stoðir, ættu líkurnar á sveiflum að minnka.

Um þetta, herra forseti, held ég að flestir hagfræðingar séu sammála, hvort sem þeir eru í Framsfl. eða ekki. En hagfræði Vinstri grænna finnst mér merkileg.