Orkustofnun

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 21:08:06 (5001)

2003-03-13 21:08:06# 128. lþ. 100.31 fundur 544. mál: #A Orkustofnun# (heildarlög) frv. 87/2003, Frsm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[21:08]

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég hélt að það hefði orðið samkomulag um það milli fulltrúa flokkanna í iðnn. að mæla fyrir báðum nál. í einu, þ.e. um frv. til laga um Orkustofnun og frv. til laga um Íslenskar orkurannsóknir, enda hanga þau mjög saman. Ég mæli þá fyrir nál. um frv. til laga um Orkustofnun frá iðnn. sem er grunnurinn að báðum þeim frv. sem í raun eru til umræðu.

Fyrra frv., sem er frv. til laga um Orkustofnun, byggir á niðurstöðum nefndar sem hæstv. iðnrh. skipaði og átti að yfirfara skipulag Orkustofnunar með hliðsjón af því aukna stjórnsýsluhlutverki sem stofnuninni hefur verið falið með lögum um rannsókn og nýtingu auðlinda í jörðu, og ýmsum öðrum lögum. Með öðrum orðum hefur hlutverk stofnunarinnar verið að breytast allverulega. Markmiðið með þessari nefndarskipan var að skoða hver staða Orkustofnunar væri í ljósi þessa breytta hlutverks sem og að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra vegna þessa breytta hlutverks.

Það má segja að frv. sé eiginlega niðurstaða af þessu nefndarstarfi og felur það í sér að skerpa á stjórnsýsluhlutverki stofnunarinnar. Jafnframt er lagt til að rannsóknarsvið Orkustofnunar sem nú er verði skilið frá stofnuninni og gert að sérstakri stofnun, en starfsemi vatnamælinga verði áfram rekin sem sjálfstæð eining og stofnuninni fengið aukið eftirlitshlutverk að lögum. Þá gerir frv. ráð fyrir breytingum á hlutverki orkuráðs sem verður orkumálastjóra til ráðgjafar í stefnumarkandi málum en ábyrgð á rekstri og stefnumótun verður hjá orkumálastjóra.

Þetta eru sem sagt meginatriði frv., herra forseti, þar sem í rauninni er verið að skilja Íslenskar orkurannsóknir frá Orkustofnun vegna möguleika á hagsmunaárekstrum. Þess vegna er frv. til laga um Íslenskar orkurannsóknir lagt fram.

Umfjöllun nefndarinnar var nokkuð ítarleg og komu nokkrir gestir á hennar fund ásamt því að skriflegar umsagnir bárust frá mörgum aðilum eins og rakið er á þskj. 1295. Eftir þá umfjöllun komust nefndarmenn að þeirri niðurstöðu að hyggilegra væri að breyta frv. með það í huga að auka sjálfstæði Orkusjóðs, nefnilega þannig að Orkusjóður heyrði ekki undir orkumálastjóra heldur beint undir ráðherra. Var hugsunin á bak við það sú að hugsanlega gætu verið hagsmunaárekstrar með þessum beinu tengslum Orkusjóðs við embætti orkumálastjóra.

Það er af þeirri ástæðu sem hv. iðnn. leggur til nokkrar breytingar sem raktar eru á þskj. 1295 og lúta fyrst og fremst að þessu aukna sjálfstæði Orkusjóðs sem ég vék að. Um þetta varð allgott samkomulag innan nefndarinnar og nefndin mælir með samþykkt frv. með þeim breytingum sem raktar eru í þingskjalinu og ég hef nú gert grein fyrir.

Hið sama má segja um nál. um frv. til laga um Íslenskar orkurannsóknir. Það byggir á því frv. sem ég var að gera grein fyrir og er gert ráð fyrir því að Íslenskar orkurannsóknir verði sjálfstæðar, gerðar að sérstakri ríkisstofnun sem heyri beint undir hæstv. iðnrh. í samræmi við breytinguna á Orkustofnun. Þessi aðskilnaður þykir nauðsynlegur til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra sem gætu skapast við breytingar á starfsumhverfi orkufyrirtækja samkvæmt frv. til raforkulaga.

Hlutverk Íslenskra orkurannsókna er rakið í frv. sem og í nál. Það varð samkomulag um nál. og hv. iðnn. mælir með samþykkt þessa frv., þó með þeirri breytingu að forstjóri Íslenskra orkurannsókna verði ráðinn af stjórn stofnunarinnar en ekki af ráðherra. Er hugsunin sú að Íslenskar orkurannsóknir eigi að vera alveg sjálfstæðar og reknar nánast sem sjálfstætt fyrirtæki og þá er eðlilegt að stjórnin hafi heimild til þess að reka og ráða, en þurfi ekki að skjóta því til ráðherra.

Herra forseti. Iðnn. mælir með því að þessi frv. verði samþykkt og stendur öll nefndin að því, en hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson samþykkir bæði frv. með fyrirvara.