Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 22:12:24 (5014)

2003-03-13 22:12:24# 128. lþ. 100.33 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[22:12]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. iðnn. fyrir umfjöllun um þetta mál. Ég tel að það liggi ákaflega skýrt fyrir, það sé í rauninni ekki flókið en vissulega nokkuð stór ákvörðun. Ekki er hægt að neita því þar sem heimilað verður, ef frv. verður að lögum, að selja Sementsverksmiðjuna.

Miðað við undirtektir sem málið fékk við 1. umr. var tekin sú ákvörðun í iðnrn. að auglýsa verksmiðjuna með fyrirvara um samþykki Alþingis þar sem málið er mjög brýnt. Þetta er brýnt úrlausnarefni sem hér um ræðir og það má engan tíma missa. Þess vegna var auglýst. Það má kannski deila um hvort það var rétt, en engu að síður er þetta skýringin á því að svo var gert.

Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson er með tillögu um að vísa þessu máli aftur til ríkisstjórnarinnar. Ég vil segja út af því að ég tel að sú leið sem hér er lagt upp með geti orðið lausn þess erfiða máls sem við er að eiga, þ.e. að verksmiðjan er rekin með tapi og augljóst að þannig getur það ekki haldið áfram lengi. Þess vegna tel ég mikilvægt skref að fá þetta frv. samþykkt sem hér um ræðir og geta haldið áfram að þróa málið og væntanlega, miðað við þær undirtektir sem við höfum fengið og orðið vör við í ráðuneytinu eftir að opinbert var að verksmiðjan skyldi seld ef samningar tækjust, er úr einhverju að spila í þeim efnum. Við munum a.m.k. leggja okkur fram um að vanda til verka því að við gerum okkur alveg grein fyrir því í ráðuneytinu að þetta er viðkvæmt mál, þetta er mikilvægur vinnustaður og einnig sá þáttur mála sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson fjallaði um hvað varðar endurvinnslu, eyðingu efna. Það er mikilvægur þáttur í starfsemi verksmiðjunnar. Þetta mál er á allan hátt þannig vaxið að full ástæða er til að fara að öllu með gát, vanda sig, en engu að síður tel ég að það hafi ekki verið um annað að ræða en að taka á málinu og niðurstaðan var að taka á því með þeim hætti sem frv. ber vitni um. Ég vil, eins og ég segi, lýsa ánægju með að mér finnst að það hafi fengið skilning á hv. Alþingi og það eru þá væntanlega skilaboð um að hv. Alþingi sé sammála okkur í ríkisstjórninni um að þetta geti verið leið til lausnar á viðkvæmu máli.