Raforkuver

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 15:50:55 (5110)

2003-03-14 15:50:55# 128. lþ. 101.14 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[15:50]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Í hluta af kafla ræðu hv. þm. fannst mér eins og hún væri að reyna að gera úrskurð hæstv. setts umhvrh. tortryggilegan. Ég vona að það sé misskilningur minn vegna þess að það er skoðun mín og mjög margra annarra að mikil sátt sé um þann úrskurð. Ég vona þess vegna að það sé misskilningur hjá mér að hv. þm. hafi verið að reyna að gera þann úrskurð í sjálfu sér tortryggilegan og minni á að meginkjarninn í þeim úrskurði er að friðlöndin í Þjórsárverum eru friðlýst.

Hvað varðar setlónið og fskj. III með frv. sem hv. þm. gerði að umtalsefni, þá byggir það á fyrstu hugmyndum Landsvirkjunar um útfærslu eftir þennan úrskurð. Hv. iðnn. minnist síðan á þau sjónarmið sem oddviti Gnúpverja teflir fram og lítur svo á að bæði sjónarmið séu jafnrétthá. Í úrskurðarorðum segir í lok 2. tölul.: ,,Endanleg stærð og umfang setlónsins skal ákvarða í samráði við sveitarstjórn og Umhverfisstofnun.`` Það eru úrskurðarorð. Það sem skiptir mestu máli og var staðfest í vinnu nefndarinnar er að þetta samráðsferli er til staðar og var ekki annað að heyra en allir þessir aðilar væru bjartsýnir um að þeir mundu ná saman um það. Þannig hljómar úrskurðurinn og málið er þess vegna í eðlilegum farvegi. Hv. iðnn. tekur undir þetta, hún virðir sjónarmið Gnúpverja. Hún tekur undir meirihlutaálit umhvn. og gerir það að sínu. Og það er meginniðurstaðan í þessu að málið er í eðlilegum farvegi og samráðsferlið er til staðar. Það er kjarni málsins.