Raforkuver

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 16:06:35 (5115)

2003-03-14 16:06:35# 128. lþ. 101.14 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[16:06]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ekki hefur skort á það að sá þingmaður sem hér stendur í ræðustól hafi stutt hæstv. iðnrh. í virkjunaráformum og áformum hennar um að reisa álver. En orð skulu standa. Ég var sem formaður Samfylkingarinnar kvaddur á fund setts umhvrh. og mér var kynnt sú tilhögun sem hann byggði úrskurð sinn á. Og það var alveg klárt að það sem hæstv. ráðherra kynnti formanni Samfylkingarinnar var lón sem var 3,3 ferkílómetrar og lónshæð sem var 566 m yfir sjávarmáli. Og það var meira að segja skýrt í því plaggi sem þessu lá til grundvallar hvers vegna lónshæðin væri sú sem hún var.

Þetta er það sem sáttin varð um. Þetta er sú sátt sem þjóðin gerði í tengslum við þennan úrskurð, þetta er sú sátt sem heimamenn féllust á, þetta er sú sátt sem Samfylkingin féllst á og það kemur ekki til mála að horfið verði frá henni.

Nú er hæstv. heilbrrh. genginn í salinn og hann getur staðfest þetta. Það var þannig að a.m.k. þessum formanni stjórnmálaflokks í stjórnarandstöðu var af hálfu ráðherrans kynnt ákveðin tilhögun. Hún var lón upp á 3,3 ferkílómetra, hún var vatnshæð sem var 566 m yfir sjávarmáli. Og það er alveg ljóst að það verður engin sátt um neitt annað. Ef Landsvirkjun er með einhverjum hætti að reyna að smokra sér fram úr eða fram hjá því sem þarna var lagt til grundvallar sáttinni er hún að kalla yfir sig stríð og átök um þetta mál.