Raforkuver

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 16:19:25 (5122)

2003-03-14 16:19:25# 128. lþ. 101.14 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, Frsm. 2. minni hluta SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[16:19]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég hefði hugsanlega komið máli mínu fyrir í andsvari en þar sem nokkuð margir voru komnir í andsvar við hæstv. ráðherra ætla ég að flytja stutta ræðu. Erindi mitt í ræðustól er fyrst og fremst að biðja ráðherra um aðeins skýrari svör.

Það liggur ljóst fyrir um hvað sú sátt var sem myndaðist um úrskurð setts umhvrh. Sú sátt myndaðist um þá kynningu sem Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsens var með eftir að úrskurðurinn lá fyrir. Sú sátt sem þjóðin keypti og ýmis náttúruverndarsamtök og ótrúlega margir aðrir voru svo hamingjusamir með, miðaðist við 566 m lónhæð. Hún miðaðist við aurskolun. Sú sátt miðaðist við það sem Már Haraldsson, oddviti Gnúpverja, minnir á í erindi sínu til fulltrúa í iðnn. eftir fund með nefndinni og Landsvirkjun. Við fulltrúar Samfylkingarinnar birtum það sem fylgiskjal með minnihlutaáliti okkar. Þar er minnt á að í tillögu VST sé miðað við 566 m lónhæð, fyrst og fremst vegna þess að aurskolun virki ekki við hærri lónhæð. Minnt er á að sú sátt sem er um úrskurðinn byggir alfarið á þessari hugmynd. Már segir líka að ef gerð yrði krafa um meiri lónhæð yrði sáttin úr sögunni enda þótt skilyrðum um lón og mannvirki utan friðlands væri fullnægt.

Hæstv. ráðherra rifjaði það upp áðan að einn stjórnarandstöðuþingmanna hefði velt fyrir sér af hverju hæstv. ráðherra kæmi með þetta frv. fyrir þingið. Í fyrsta lagi þyrfti ekki að leita heimildar Alþingis vegna veitna og í öðru lagi værum við væntanlega að afgreiða frv. til nýrra raforkulaga í dag, á morgun eða á mánudaginn. Þegar þau eru orðin að lögum þarf hæstv. ráðherra ekki að koma með einstakar virkjanir inn til samþykktar og meðferðar á Alþingi.

Ég ætla að segja það aftur að því miður hefur uppsetningin á þessu frv. haft það í för með sér að þeir sem mestar áhyggjur hafa af því að ekki verði farið að niðurstöðu setts umhvrh., í takti við þá kynningu sem Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsens var með, velta vöngum yfir því af hverju fara þurfti með veituna inn í þingið og láta þingið samþykkja hana með þessu fylgiskjali. Af hverju er þetta fylgiskjal með í frv. um framkvæmd sem menn skilja ekki alveg af hverju er lagt fyrir þingið?

Herra forseti. Svona hugsa þeir sem hafa mestar áhyggjur, kannski af fenginni reynslu. Ég held þó að reynsla heimamanna af samskiptum við Landsvirkjun hafi hingað til verið mjög góð. En einhverra hluta vegna hafa menn það miklar áhyggjur af þessu að komnar eru upp samsæriskenningar í þessa veru. Það er vont, herra forseti. Það er vont. Ég er á þeirri skoðun að birtingin á fskj. III hljóti að hafa verið slys. Ég skil ekki af hverju einn aðili fær að birta hér hugmyndir sínar en aðrir ekki.

Ég er aðeins að biðja um, herra forseti, að hæstv. ráðherra geri klárt hvaða stöðu fskj. III hefur í raun og veru. Hefur það eitthvert gildi í tengslum við þessa lagasetningu? Af hverju ákveður ráðuneytið að hafa fskj. III með í frv.? Var sú ákvörðun að hafa það með í raun tekin í fljótræði? Var hún þannig að menn höfðu ekki hugsað málið til enda eða hefur hún merkingu í tengslum við það að leitað er heimilda fyrir veitunni? Það er þetta sem menn bíða eftir að fá svar við. Ég vænti að hæstv. ráðherra komi með það í umræðunni til þess að menn geti af meiri yfirvegun og trúnaði haldið áfram að vinna að því samkomulagi sem á endanum verður unnið eftir þegar veitan verður útfærð.