Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 20:00:34 (5150)

2003-03-14 20:00:34# 128. lþ. 101.17 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[20:00]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég hef alltaf unun af því að hlýða á hv. þm. Jón Bjarnason. Hann er oft rökfastur og skyggnist vel inn í framtíðina eins og sumir í hans ágæta flokki. Ég hef stundum hlustað á hann tala um stóriðjuframkvæmdir. Auðvitað hefur það ekki farið fram hjá mér að hv. þm. er ekki mjög hlynntur stóriðjuframkvæmdum. Þess vegna hafði ég dálítið gaman af því að undir miðbik ræðu sinnar gat hv. þm. þess réttilega að á næsta kjörtímabili væri að vænta stórframkvæmda á Austurlandi og á Grundartanga og af því mundi hljótast aukin velta í samfélaginu og auknar tekjur. Mál hv. þm. var ekki hægt að skilja á annan veg en svo að hann vonaðist til að hægt yrði að nota dágóðan hluta af þeim auknu tekjum fyrir landsbyggðina.

Ég er sammála því, herra forseti, að á næsta kjörtímabili eigum við að nota part af þeim auknu verðmætum sem verða til vegna þessara framkvæmda þar sem þær verða til, þ.e. á landsbyggðinni. En ég nefni þetta, herra forseti, vegna þess að allt í einu er hv. þm. Jón Bjarnason farinn að gleðjast yfir þeim tekjuauka sem verða mun af þeim framkvæmdum sem hann hefur ekki alltaf verið ákaflega hlynntur. Þetta sýnir að um síðir rennur upp skilningur hjá flestum á því sem gott er, fari þeir nógu djúpt í það. Mér sýnist bros skilnings, að ég segi ekki glit skilnings, tekið að ljóma úr augum hv. þm. Ögmundar Jónassonar, flokksbróður hans.

Ekki kem ég þó hingað upp, herra forseti, til þess að bekkjast við hina góðu félaga mína í stjórnarandstöðunni. Ég kem hingað til að lýsa því yfir að ég er að mörgu leyti ánægður með þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hafa sett töluvert fjármagn í að styrkja atvinnustigið. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að það hafi verið rétt í þessari stöðu vegna þess að það var töluverður slaki kominn í atvinnustigið. Af hverju? Jú, þessir herramenn hafa árum saman talað um að það sé svo mikið góðæri. En þegar góðærinu slotar og þeir eru að fara í kosningar halda þeir því samt fram að efnahagslífið sé með miklum blóma. Þá blasir samt sem áður við að fyrir tilverknað þeirra og ríkisstjórnar þeirra ganga 6 þúsund Íslendingar um atvinnulausir. Hvað gera menn við þær aðstæður? Að sjálfsögðu reyna þeir að ráðast í framkvæmdir á vegum hins opinbera til að styrkja atvinnustigið. Þetta er bara eins og tekið upp úr textabók okkar gömlu jafnaðarmanna sem allir aðhyllast nú um stundir, það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson kallaði fyrir tveimur kvöldum blandað hagkerfi.

Herra forseti. Í hinu blandaða hagkerfi skiptir hlutur ríkisins töluverðu. Ríkið sér auðvitað um vegaframkvæmdir og það er vel til fundið að ráðast í þær út frá þessum forsendum. Mér finnst ekki of mikið lagt í framkvæmdir á landsbyggðinni. Ég vil að það komi skýrt fram. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að setja hefði átt meira fé til framkvæmda á Reykjavíkursvæðinu. Það hefði átt að bæta við þann sjóð sem þarna er. Gleymum því ekki að þetta fjármagn átti að fara til að draga úr atvinnuleysi. Sex þúsund manns eru atvinnulaus á landinu. Hver er þetta atvinnuleysi? Mest af því er í tveimur hinna nýju kjördæma, þ.e. Reykjavík norður og suður. Þar er 70% atvinnuleysisins að finna. Í fljótu bragði, herra forseti, má þess vegna reikna út að það séu um það bil 5 þúsund manns.

Annað gerir það að verkum að ég tel að vel hefði mátt setja meira fjármagn í framkvæmdir núna. Ástæðan er einmitt þær ágætu framkvæmdir sem hv. þm. Jón Bjarnason gerði að umtalsefni. Á næsta kjörtímabili blasir við að hér verða stórfelldar framkvæmdir á tveimur, þremur stöðum á landinu. Þetta þýðir að þensla verður vaxandi í samfélaginu. Gengi íslensku krónunnar er hátt. Vextir þurfa að hækka, segir Seðlabankinn. Þó eru til ráð til að sporna gegn þessum afleiðingum framkvæmdanna. Þær felast í að draga úr framkvæmdum hins opinbera en ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að draga úr magninu heldur eigi að hliðra því til. Það er hægt að fresta sumum framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru á næstu árum en einnig hægt að hliðra þeim til í tíma með öðrum hætti. Það er hægt að flýta þeim. Ég er þeirrar skoðunar að það hefði átt að flýta meira af framkvæmdum núna, nota meira fjármagn til að ráðast í framkvæmdir sem við sjáum þegar að inna á af höndum af ríkisins hálfu í ýmsum áætlunum sem við erum að samþykkja og við höfum þegar samþykkt. Ég tel, herra forseti, að það hefði verið vel forsvaranlegt af ríkinu að gera meira til að styrkja atvinnustigið.

Hitt er ljóst að það eitt að nauðsynlegt sé að verja 6 milljörðum til að styrkja atvinnustigið í landinu er ekkert annað en viðurkenning af hálfu ríkisstjórnarinnar á því að henni hefur mistekist í þessum efnum.

Ég vil vekja eftirtekt á því, herra forseti, að þingmenn Samfylkingarinnar bentu á að nauðsynlegt væri að hafa miklu meira samráð við þingmenn og þingmannahópa hinna einstöku kjördæma varðandi það hvernig þessum fjármunum er varið. Það er hlálegt þegar menn ætla að ráðast í að byggja nýja vegi skuli Vegagerðin heyra af þeim fyrirætlunum í fyrsta skipti í gegnum fréttirnar. Þessi vinnubrögð eru ekki til eftirbreytni eins og ég veit að hv. þm. Jón Bjarnason er mér algerlega sammála um.

Ég hef undanfarið ferðast um landið með forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Það er sláandi hversu menn kvarta sums staðar yfir því að ekki hafi neitt samband verið haft við staðkunnuga menn um hvernig eigi að verja þessu fé. Þegar menn aka t.d. um sunnanverða Austfirði er það alveg með ólíkindum fyrir okkur sem dag hvern erum vön að aka um á bundnu slitlagi að aka þar um skriður þar sem slitlag er ekki bundið, ég tala nú ekki um fjölda hættulegra einbreiðra brúa. Við þingmenn Samfylkingarinnar erum þeirrar skoðunar að samhliða þessu hefði átt að ráðast í sérstakt átak til þess að ryðja burt einbreiðum brúm. (ArnbS: Og hætta við framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu.) Það er hægt að ráðast í átak af því tagi án þess að því fylgi mikill og tímafrekur undirbúningur. Slíkar framkvæmdir þurfa ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum og skapa töluvert mikla atvinnu á landsbyggðinni.

En það eru líka einbreiðar brýr, því miður, í grennd við höfuðborgarsvæðið. Ég heyri reyndar að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, sem hér kallar fram í einhver aðdáunarorð heyrist mér, virðist ekki vita af því. (Gripið fram í.) Það sem ég er að segja, herra forseti, til þess að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir viti nákvæmlega hvað ég á við, er að ég tel að fyrir utan þá 6,3 milljarða sem setja á í þetta verkefni hefði átt að setja meira fé, m.a. til þess að ráðast í sérstakt átak á þessu sviði. Af hverju? Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir á að vita, þar sem hún hefur árum saman komið nálægt samgöngumálum --- hún hefur setið í samgn. og einu sinni stakk ég upp á því að hv. þm. yrði gerð að samgrh. en við því var ekki orðið þegar Sjálfstfl. myndaði þá ríkisstjórn --- að fylgifiskur hinna einbreiðu brúa er gríðarleg slysatíðni. Þess vegna mundum við sennilega hafa mestan arð af því að ráðast í slíkar framkvæmdir í mannslífum talið en líka út frá hinu þjóðhagslegu (Gripið fram í.) sjónarmiði.

Herra forseti. Þingmenn sem hér hafa setið missirum saman, að ég segi ekki árum og kjörtímabilum saman, verða stundum að reyna að rífa sig upp úr þessu leiðigjarna kjördæmapoti sem einkennir menn allt of mikið, sérstaklega ef um er að ræða tiltölulega víðsýna og frjálslynda þingmenn eins og hv. þm. sem hér kallar fram í. Eina ráðið til þess, herra forseti, er að vísu að setja hana í kjördæmi með öllum öðrum þingmönnum. Ég gæti haldið langa tölu um það eftirlætishugðarefni mitt og flokks míns, að gera landið allt saman að einu kjördæmi. Mundi þá loksins hverfa og falla hamurinn af hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttur, þ.e. kjördæmapotarahamurinn.

Herra forseti. Margt er gott í því sem ríkisstjórnin hefur lagt til. Mér finnst í sjálfu sér gott að núna eigi að ráðast í að byggja menningarhús. Framsfl. var ekki alveg sammála því á síðasta kjörtímabili að peningunum væri best varið í menningarhús. Ég verð að taka undir að það er hugsanlegt að með einhverjum hætti kynni að vera betra að nota þá peninga í menningarmiðstöðvar ýmsar, t.d. Nýheima á Hornafirði sem sameinar það að vera klakstöð fyrir frumkvöðla, skjól fyrir fullorðinsfræðslu og athvarf nýs framhaldsskóla af nútímalegum toga.

Herra forseti. Ég vil líka segja að ef menn ráðast í aðgerðir sem eiga að bæta menningu og menntir í kjördæmum landsins þá verða þeir að hafa einhverja stefnu og áætlun að fylgja eftir. Ég hlýt að vekja eftirtekt á því að Sjálfstfl. lofaði hvorki meira né minna en sex menningarhúsum fyrir síðustu kosninar. Hann sveik loforð um sex menningarhús fyrir síðustu kosningar. Hann lofar nú menningarhúsi á Akureyri og í Vestmannaeyjum. Hvað vitum við og kjósendur, getum við treyst þessu? Hvað vitum við nema Sjálfstfl. svíki loforðin um þessi tvö menningarhús eins og hann sveik loforðin um þau sex sem lofað var fyrir síðustu kosningar?

Það er hið besta mál, herra forseti, að ríkisstjórnin skuli ætla að ráðast í menningarhús á Akureyri og í Vestmannaeyjum. Ég styð það. En ef menn eru að eyða 6,3 milljörðum í svona framkvæmdir og eyða milljarði í menningarhús, af hverju horfa menn ekki svolítið nær sér og velta fyrir sér hvort hægt sé að verja peningum til að efla menninguna með einhverju öðru móti?

Það er eitt mál, herra forseti, sem mig langar að drepa á vegna þess að það er hugðarefni varaformanns Samfylkingarinnar sem því miður getur ekki verið með okkur sem stendur, þ.e. að ljúka gerð menningarsalar sem hefur staðið fokheldur í Hótel Selfossi í aldarfjórðung. Meðal Sunnlendinga hefur ríkt nokkuð almenn samstaða um að ljúka byggingu þessa þarfa mannvirkis. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það skiptir máli að gera það. Þetta kostar 120 millj. Í 25 ár, herra forseti, hefur þessi salur staðið ókláraður. Ég sé það á undirtektum hv. þm. Drífu Hjartardóttur að hún er mér algjörlega sammála um að það hefði átt að setja 120 millj. í að ljúka þessu. Hvernig má það gerast að í 25 ár skuli menningarsalur af þessu tagi standa hálfkláraður, fokheldur? Þetta er auðvitað öllum sem að þessu máli koma til vansa. Ég tel að þeir þingmenn Sunnlendinga sem einhverju ráða í þessum sal, og meðal þeirra er hv. þm. Drífa Hjartardóttir sem kinkar ákaft kolli í salnum, ættu að taka sig saman um að koma þessu máli í höfn.

Að lokum, herra forseti, þegar verið er að tala um það að skapa störf, er óhjákvæmilegt að benda á að ef einhverjum hluta þessara peninga hefði t.d. verið varið til að styðja rannsóknasjóði hins opinbera þá hefði það skapað mikinn fjölda starfa fyrir unga fræðimenn og vísindamenn. Þeir peningar sem fara um vísindasjóði hins opinbera fara að 7/10 til að greiða laun. Þetta skiptir ekki síst máli fyrir þær byggðir þar sem háskólar hafa risið, eins og Reykjavík og Akureyri og byggðakjarna sem eru að verða til í kringum frábæra, litla háskóla eins og í kjördæmi hv. þm. Jóns Bjarnasonar.

Herra forseti. Ég hef í grófum dráttum farið yfir viðhorf mín til þessa máls. Ég er sammála þessu. Ég tel að réttlætanlegt hefði verið að setja meiri fjármuni í þetta. Þá er ég ekki síst að horfa til þenslunnar sem er fram undan. Ég tel að eitt af því sem næsta ríkisstjórn þarf að velta fyrir sér sé það að hnika til framkvæmdum. Spurningin er ekki aðeins um að fresta þeim og ráðast í þær síðar. Það er líka mögulegt að ráðast í þær fyrr en menn ætluðu. Ég tel að ríkisstjórnin hefði átt að velta því betur fyrir sér.