Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 02. október 2002, kl. 21:06:12 (16)

2002-10-02 21:06:12# 128. lþ. 2.1 fundur 129#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, KLM
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 128. lþ.

[21:06]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Góðir landsmenn. Hæstv. forsrh. hefur flutt stefnuræðu ríkisstjórnar sinnar í upphafi kosningaþings. Í ræðunni kom m.a. þetta fram, með leyfi forseta:

,,Þing sem undir nafni rís verður einnig að vera vettvangur dagsins og völlur pólitískra átaka, þar sem rökum er teflt saman, hugsjónir lita orðræðuna og þingmenn sanna fyrir sjálfum sér og öðrum að þeim sé ekki sama hvernig þjóðmálin þróast.``

Herra forseti. Ég er þessu fyllilega sammála en mér fannst hins vegar nöturlegt að hlýða á stefnuræðuna og heyra ekki í henni neinn vott af uppbyggjandi umræðu eða umfjöllun um þjóðmálin eins og forsrh. boðar.

Herra forseti. Ég er einn af þeim sem er ekki sama hvernig þjóðmálin þróast. Mér er ekki sama hvernig byggðamálum er stjórnað og mér er ekki sama þegar ég horfi til sveitarfélaganna á landsbyggðinni og sé hversu hratt fólki fækkar þar og sé hvernig atvinna verður sífellt einhæfari og fábrotnari. Nei, mér er alls ekki sama hvernig byggðamálin hafa þróast í tíð núverandi ríkisstjórnar. Og mér er heldur ekki sama um að forsrh. minnist ekki einu orði á málefni landsbyggðar og brýnasta byggðamálið sem er jöfnun aðstöðu og lífskjara.

Á liðnum árum hef ég ítrekað bent á og stutt með rökum að misrétti milli landsbyggðarfólks og höfuðborgarbúa hefur vaxið gífurlega í tíð núverandi ríkisstjórnarflokka. Í raun og veru hefur ríkisstjórnin skipt íslenskri þjóð í tvær ólíkar þjóðir eftir lífskjörum. Það búa tvær þjóðir í þessu landi. Mér finnst dapurlegt að vita til þess að ríkisstjórnin skuli ekki hafa neina stefnu fram að færa í þessum mikilvæga málaflokki. Lífskjarajöfnun er ekki til í orðabók hæstv. ríkisstjórnar.

Tökum nokkur dæmi. Hæstv. forsrh. hefur sagt að flutningskostnaður hafi lækkað á liðnum árum vegna þess að í einhverjum tilvikum hafi vegir styst. Vissulega hefur slíkt átt sér stað en sá þáttur vegur ekki þungt í þessu dæmi. Staðreyndin er þvert á móti sú að flutningskostnaður hefur verið að stórhækka á undanförnum árum, og hver er ástæðan? Veruleg hækkun á þungaskatti og öðrum sköttum ríkisins meðal annars. Flutningskostnaður er einn aðalorsakavaldur þess að rúmlega 100% munur þekkist á vöruverði milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar og einnig einn aðalorsakavaldur sífellt versnandi rekstrarskilyrða fyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu. Svo er fullyrt í stefnuræðu að flutningskostnaður hafi lækkað. Þetta eru öfugmæli sem ég bið landsbyggðarfólk og forsvarsmenn fyrirtækja á landsbyggðinni að gefa gaum. Er hækkun flutningskostnaðar e.t.v. eitt af því sem hæstv. forsrh. kallar smávægileg dægurmál sem blásin eru upp í æðra veldi?

Ótal fleiri dæmi mætti nefna, svo sem misrétti varðandi þá sem þurfa að sækja sér framhaldsskólamenntun. Þar getur aukakostnaður þeirra sem ekki hafa framhaldsskóla í byggðarlagi sínu orðið um 400 þús. kr. á hvern ungling á ári. Smáskref er þó stigið í átt til jafnréttis með svokölluðum dreifbýlisstyrk.

Í fjölmörg ár hefur húsnæðisþáttur vísitölu neysluverðs eingöngu verið mældur á höfuðborgarsvæðinu. Húsnæðisskortur þar og stórhækkun fasteignaverðs hefur leitt til hækkunar allra lána, jafnt lána höfuðborgarbúa sem landsbyggðarfólks. Á sama tíma hafa íbúar víða á landsbyggðinni mátt búa við verðhrun húsnæðis. Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnar og Seðlabanka hafa miðast við efnahagsástand á höfuðborgarsvæðinu þar sem þensla hefur ráðið ríkjum. Seðlabankinn hefur, m.a. vegna þessa, haldið uppi hálfgerðum okurvöxtum. Þessir háu vextir hafa valdið gífurlegum erfiðleikum, bæði hjá heimilum og hjá fyrirtækjum. Landsbyggðarfólk, sem víða hefur búið við áralangan samdrátt atvinnutækifæra, hefur mátt búa við það að borga sömu vextina og íbúar á suðvesturhorninu, vexti sem ætlaðir voru til að draga úr þenslu sem landsbyggðarfólk þekkir ekki nema af umræðu í fjölmiðlum.

Herra forseti. Aðeins eitt dæmi í viðbót. Nýlegar skattkerfisbreytingar ríkisstjórnarinnar hjá fyrirtækjum íþyngja fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni svo og litlum og meðalstórum fyrirtækjum um allt land vegna hækkunar tryggingagjalds. Hver er ástæðan? Jú, vegna erfiðra rekstrarskilyrða á landsbyggðinni hefur hagnaður fyrirtækjanna verið lítill eða enginn þannig að lækkun tekju- og eignarskatta kemur ekki að gagni. Þannig er ljóst að áætlaður hagnaður fyrirtækja í Reykjavík og í Reykjaneskjördæmi er hvorki meiri né minni en tæpar 3 þús. millj. kr. meðan hagnaður fyrirtækja í landsbyggðakjördæmum er nánast á núlli. Fyrirtæki á landsbyggðinni hagnast ekkert á þessum skattkerfisbreytingum.

Herra forseti. Ég tel að með þessum örfáu dæmum hafi rökum verið teflt fram --- eins og og forsrh. vildi fá --- fyrir því að landsmenn sitja ekki allir við sama borð og að ríkisstjórnin hefur með aðgerðaleysi sínu skipt þjóðinni í tvennt. Íbúar landsbyggðarinnar fara aðeins fram á að jafnræðisreglan sé virt. Það er hægt að snúa vörn í sókn í byggðamálum ef vilji er fyrir hendi og ýmis teikn eru á lofti um að aukin umræða um byggðamál hér á hinu háa Alþingi fari að skila árangri í þeim efnum. Þeirri umræðu verður haldið áfram við hvert tækifæri.

Herra forseti. Að lokum þetta: Þær miklu breytingar sem Alþingi hefur gert á undirstöðuatvinnuvegi landsbyggðarinnar, þ.e. sjávarútvegi, hafa komið fjölmörgum byggðarlögum ákaflega illa. Einn megingalli sjávarútvegsstefnunnar er að handhafi veiðiheimildanna getur með einni undirskrift selt frá byggðarlagi allar veiðiheimildir og svipt fólkið ævistarfi og eignum.

Góðir landsmenn. Það er verk að vinna. Hæstv. forsrh. sagði í stefnuræðu sinni að ýmsar stofnanir ríkisins hefðu horn í síðu kosningaþings þar sem stjórnmálamenn virtust vera veikari fyrir þrýstihópum en ella. Ef sá þrýstingur verður til þess að þau mál sem ýtt hefur verið á undan og ekki hefur verið tekið á verða leyst er það vel. Mál sem virðist lítið í upphafi getur orðið stórmál ef ekki er tekið á því.

Góðir Íslendingar. Íslensk þjóð þarf á stórum og öflugum jafnaðarmannaflokki að halda, flokki sem hefur burði til að breyta þjóðfélaginu frá misrétti til jafnréttis. Samfylkingin býður upp á þennan kost, og aðeins stóraukinn styrkur jafnaðarmanna hér á Alþingi getur snúið málum til betri vegar í okkar ágæta landi.

Ég þakka þeim sem á hlýddu. Góðar stundir.