Velferð barna og unglinga

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 13:31:59 (89)

2002-10-03 13:31:59# 128. lþ. 3.95 fundur 134#B velferð barna og unglinga# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[13:31]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs og beini máli mínu til hæstv. félmrh. Eins og fram kom er umræðuefnið velferð barna og unglinga.

Hæstv. félmrh. fer með barnaverndarmál og undir hann heyrir Barnaverndarstofa en auðvitað á þessi málaflokkur sér víða samastað í Stjórnarráðinu og kemur inn á velflesta málaflokka. Þannig fara ráðuneyti dómsmála, heilbrigðismála, menntamála og jafnvel forsætisráðuneytið með viðamikla málaflokka sem undir þetta heyra.

Herra forseti. Þó að margt sé mjög gott í okkar ágæta samfélagi og allur þorri fólks búi við viðunandi afkomu og mannsæmandi aðstæður er það engu að síður staðreynd að svo gildir ekki um alla. Við erum af og til minnt á ýmsar brotalamir í velferðarkerfi okkar, á að fjöldi fólks nær vart endum saman. Þúsundir fjölskyldna búa við erfiðar aðstæður. Vinnudagur á Íslandi er langur og við getum væntanlega öll gert okkur í hugarlund, ef við þekkjum það ekki af eigin raun eða úr okkar nánasta umhverfi, t.d. hagi einstæðra foreldra sem vinna hörðum höndum að því að afla tekna til að framfleyta fjölskyldum sínum og þá er lítill tími eftir til samskipta við börnin og til að sinna foreldrahlutverkinu.

Margt er því miður, herra forseti, þess eðlis að erfitt er um það að ræða en við hér á hinu háa Alþingi --- allra síst við --- getum skorast undan því að ræða um þau mál þó viðkvæm séu. Hlutir eins og kynferðisleg misnotkun á börnum og sjálfsvíg ungmenna eru að sjálfsögðu ekki skemmtileg umfjöllunarefni. Um þá er vandasamt að tala á þann hátt að vel fari. Hins vegar getum við ekki látið sem vandamálið sé ekki til. Það hverfur ekki þó þagað sé um það.

Ég ætla að vona að engum detti í hug að snúa þannig út úr þessari umræðu að hún sé til þess gerð að kenna einum um öðrum fremur, sakast við einn stjórnmálaflokk eða núverandi stjórnvöld frekar en aðra. Þessi viðfangsefni eru vonandi yfir slíkt hafin.

Ég tel, herra forseti, að ýmislegt sem fram hefur komið að undanförnu eigi að vera okkur hvatning til þess að takast á við þessa hluti og ræða. Hvað má betur fara, hvað getum við gert til þess að búa betur að börnum og ungmennum í landinu og reyna að hindra, eftir því sem kostur er, að þeir hlutir eigi sér stað sem við vitum að geta gerst í þessum efnum?

Nýlega komu fram skýrslur og rannsóknarniðurstöður sem gefa okkur tilefni til að fara yfir þessa hluti. Ég nefni í fyrsta lagi rannsóknarniðurstöður Hrefnu Ólafsdóttur félagsráðgjafa, sem unnin er í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, og gefa skýrar vísbeningar um að kynferðisleg misnotkun á börnum sé ískyggilega algeng hér á landi, jafnvel algengari en í nágrannalöndunum eins og Danmörku og Noregi. Með öllum þeim fyrirvörum sem hafa verður á slíkum könnunum sökum þess hversu vandasamar þær eru er engin leið að horfa fram hjá því að þarna birtast mjög alvarlegar vísbendingar.

Ég nefni í öðru lagi skýrslu landlæknisembættisins um sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunir íslenskra ungmenna. Þar eru niðurstöðurnar þær, sem við því miður þekkjum frá fyrri tíð, að tíðni sjálfsvíga er hér mjög há. Þetta er jafntítt eða jafnvel algengara en í öðrum löndum þar sem þetta vandamál er útbreiddast.

Ég nefni í þriðja lagi rannsóknarniðurstöður Jóns Torfa Jónassonar og Kristjönu Stellu Blöndal um ungt fólk og framhaldsskólann þar sem fram kemur að brottfall unglinga úr framhaldsskólum er ískyggilega hátt hér á landi. Fram kemur að ískyggilega stór hluti barna telur sig hafa átt slæma vist í efstu bekkjum grunnskólans, að þar hafi sér liðið illa.

Ég nefni að síðustu skýrslu umboðsmanns barna þar sem margar athyglisverðar ábendingar er að finna.

Ég leyfi mér því, herra forseti, að leggja spurningar fyrir hæstv. félmrh. í þessu sambandi.

1. Hvert er mat félmrh. á stöðu mála hvað varðar velferð, uppeldisskilyrði og almennar aðstæður barna og unglinga hér á landi, m.a. í ljósi þessara skýrslna?

2. Telur félmrh. þörf á sérstökum aðgerðum til að bæta uppeldisskilyrði og tryggja betur velferð barna og unglinga en nú er gert og hverjar væru þær helstar?

3. Hvernig er háttað samstarfi þeirra ráðuneyta sem fara með mikilvægustu málaflokka er varða velferð barna og unglinga?