Velferð barna og unglinga

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 13:44:53 (92)

2002-10-03 13:44:53# 128. lþ. 3.95 fundur 134#B velferð barna og unglinga# (umræður utan dagskrár), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[13:44]

Ásta Möller:

Herra forseti. Börnin eru okkar dýrmætasta eign og velferð þeirra skiptir okkur öllu máli. Á fyrstu árum ævinnar er grunnur lagður að framtíð einstaklingsins.

Tilefni umræðunnar í dag eru ýmsar skýrslur og rannsóknir sem birst hafa að undanförnu þar sem aðstæður og aðbúnaður barna er til umfjöllunar. Velferð barna er fyrst og fremst á ábyrgð foreldra og forráðamanna.

Rannsóknir benda til að gæði samskipta foreldra og barna, stuðningur og hvatning foreldra við börn sín að stunda heilbrigða lifnaðarhætti skipti sköpum um þroska þeirra og velferð. Stjórnvöld geta aldrei komið í stað þessa grundvallaratriðis. Hins vegar geta stjórnvöld með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi ýmist stutt við eða grafið undan hlutverki foreldra og forráðamanna barna. Þá verða stjórnvöld að sjá börnum fyrir úrræðum þegar forráðamenn bregðast.

Ýmsar ákvarðanir hafa verið teknar á hinu háa Alþingi og í ráðuneytum á síðustu missirum til að bæta hag barna og ungmenna. Fáein atriði vil ég nefna. Nú er t.d. að störfum nefnd undir stjórn hv. þm. Drífu Hjartardóttur sem vinnur að heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga. Þá hefur hæstv. menntmrh. nýverið skipað mig formann nefndar sem á að gera úttekt á stöðu félags- og tómstundamála barna og unglinga.

Á síðasta þingi var afgreidd þáltill. mín um heilsuvernd í framhaldsskólum sem miðar að auknum faglegum stuðningi heilbrigðisstarfsmanna við ungmennin. Þá verður lagt fram frv. til nýrra barnalaga á næstu dögum þar sem m.a. staða barna sem beitt eru ofbeldi af hendi foreldra sinna er bætt verulega en dómsmrh. hefur að undanförnu lagt til ýmsar breytingar sem bæta réttarstöðu barna. Ráðherra hyggst t.d. leggja til breytingu á hegningarlögum þar sem lagt er til að þyngja viðurlög við kynferðisafbrotum gagnvart börnum en þegar hafa verið gerðar breytingar þar sem þyngd eru viðurlög við barnaklámi.

Að lokum vil ég einnig nefna að tekið hefur verið á málum langveikra barna á þessu kjörtímabili og að nýr barnaspítali verður tekinn í notkun innan tíðar.