Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 14:27:46 (106)

2002-10-03 14:27:46# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[14:27]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst í þessu vera farið svolítið langt út fyrir efnið. Við erum að biðja um samanburð á þessu annars vegar á Norðurlöndunum og hins vegar Evrópusambandslöndunum. Þegar við skoðum Norðurlöndin þá eru Ísland og Noregur langt fyrir ofan. Við erum því að leita orsakanna fyrir því og í tillögunni segir: ,,Jafnframt verði sérstaklega leitt í ljós hvort ólík tenging Norðurlanda við Evrópusambandið hafi áhrif ...`` Við erum því að tala um þann samanburð þegar Norðurlöndin eru skoðuð annars vegar.

Og þá held ég að væri mjög athyglisvert, herra forseti, að skoða launastig. Ég hef reyndar ekkert skoðað það. Ég hef ekki hugmynd um það. En mér segir svo hugur að launastig í matvælaframleiðslu á Íslandi sé nú ekkert langt fyrir ofan það sem er á Norðurlöndunum. Einhvern veginn segir mér svo hugur um að ef við tækjum þann samanburð með inn í matvælaverðið á Norðurlöndunum, þá kæmi það mér a.m.k. á óvart ef þeir sem eru í matvælaframleiðslu á Íslandi eru með miklu hærri laun samanborið við félaga sína á Norðurlöndum. En það væri mjög athyglisvert að fá slíkan samanburð. Vegna þess, hv. þm., að ef við erum að bera saman, annars vegar matvælaverðið á Norðurlöndunum og hvort hugsanleg aðild Norðurlandanna að Evrópusambandinu hafi haft áhrif á þróun þess og ætlum síðan að taka samanburð hv. þm. um laun í matvælaframleiðslu, þá erum við væntanlega með samanburð við Norðurlönd en ekki Grikkland eða Portúgal.