Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 11:07:41 (121)

2002-10-04 11:07:41# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[11:07]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að allir þeir sem lagt hafa lóð á vogarskálarnar til að ná þessum árangri fái viðurkenningu fyrir það. En það sem ég var að tala um í ræðu minni varðandi minnkandi afskipti ríkisins af efnahagsmálum og atvinnumálum er náttúrlega byggt á því að hér hefur skipulega verið gengið til verks varðandi lagabreytingar, varðandi einkavæðingu og þess háttar til að minnka ákvörðunarvald okkar í þessum sal og völd okkar sem sitjum hér á ráðherrabekkjunum til að ráðskast með hlutina í stóru og smáu eins og gert var lengst af og margir muna vel. Sumir muna það þó kannski betur en aðrir hér í þessum sal.

Einkavæðingarferlið er einmitt liður í að koma ákvörðunum um viðskiptaleg málefni í atvinnulífinu úr höndum stjórnmálamannanna yfir til atvinnulífsins sjálfs á markaði þar sem slíkar ákvarðanir eiga auðvitað heima. Að þessu hefur verið unnið í mörg ár og þetta er mikilvægt atriði í að skapa grundvöll þess árangurs sem náðst hefur. Þetta hefur líka skilað sér í því að íslenskt atvinnulíf og efnahagslíf er núna miklu sveigjanlegra en það var áður. Það er miklu fljótara að bregðast við áföllum, taka nýjar ákvarðanir og laga sig að breytingum. Upp á þessar breytingar horfum við. Það er þess vegna sem viðskiptahallinn minnkar svona hratt og verðbólgan, þ.e. vegna þess að aðilarnir á markaðnum taka við sér og taka nýjar ákvarðanir á grundvelli breyttra forsendna.