Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 11:34:12 (125)

2002-10-04 11:34:12# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[11:34]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ánægður með að fram hafi komið hjá þingmanninum að að hans dómi sé hvergi maðkur í mysunni varðandi þjóðhagsspá eða þær forsendur sem liggja til grundvallar fjárlagafrv. og þjóðhagsspánni enda væri það síðra. Ég hafna því alveg að í þeim efnum hafi fjmrn. einhvern tíma lagt fyrir menn hér eitthvað misjafnt eða áróður eins og þingmaðurinn sagði.

Aðalatriðið er að þessi mál eru komin í nýjan farveg. Það er alveg ástæðulaust að skapa einhverja tortryggni í kringum það. Ég held að þær spár sem óháðir aðilar hafa birt sýni að það eru ekki til nein ákveðin hárnákvæm vísindi í þessum efnum. En það að aðilar eru þó þetta nærri hver öðrum varðandi útkomuna segir auðvitað sitt, þ.e. að sjálfsagt eru þeir allir nokkurn veginn á réttu róli þó að að þessu sinni sé ráðuneytið varfærnast að því er varðar hagvöxtinn. Það hefur auðvitað áhrif á skatttekjurnar og tekjur til fjárlaga og þar af leiðandi á væntanlega rekstrarniðurstöðu ríkissjóðs, þ.e. afganginn.

Að því er varðar Þjóðhagsstofnun og niðurlagningu hennar og tilflutning verkefna hefur náttúrlega verið að komast mynd á þau mál undanfarið hálft ár eða síðustu mánuði. Stofnunin var ekki lögð niður fyrr en 1. júlí. Menn hafa verið að skipta með sér verkum, Hagstofan annars vegar og fjmrn. hins vegar. Síðan er gert ráð fyrir því að aðilar eins og Hagfræðistofnun Háskólans geti tekið að sér ákveðin verkefni. Það eru ákveðnir fjármunir á lið í forsrn. vegna slíkra atriða. Ef menn telja að þingið þurfi á einhverri fagvinnu að halda í þessum efnum er bara að óska eftir því og þá finna menn auðvitað rétta farveginn fyrir slíka hluti. Auðvitað var ekki meiningin að draga úr þjónustu við Alþingi með þessum breytingum.