Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 14:32:23 (165)

2002-10-04 14:32:23# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[14:32]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég er farinn að sjá eftir því að hafa samið um að tala bara í tíu mínútur. Hér þarf að tala náttúrlega miklu meira og þyrfti að tala miklu lengur um þessi mál. (Fjmrh.: Það má ...)

Ég færi nú varlega í það ef ég væri fjármálaráðherra landsins að tala um að fá sannvirði fyrir ríkiseignir. Ég skal fara hér á eftir í umræðu um SR-mjöl sem ríkisstjórnin seldi á sínum tíma. Ég skal fara í umræðu um Áburðarverksmiðju ríkisins sem að nafninu til var seld fyrir 1.257 millj. kr. með lager upp á 700 milljónir eða þar um bil og nú er búið að selja hana með miklum ágóða áfram. Ég mundi fara varlega í þetta. Og ég mundi fara varlega í að draga upp þær líkingar sem hæstv. ráðherra gerði. Ég vísa t.d. til þess sem gerðist hjá Landssímanum. Þar var líka talað um að selja eignir og fá vexti til þess að geta braskað með peningana. Húsið hérna handan við völlinn, Landssímahúsið, var selt á 820 millj. kr. til að fá þessa vexti væntanlega, þennan hagnað. En síðan leigir sama fyrirtæki af nýjum kaupendum fyrir 8,2 milljónir á mánuði. Það er svona sem ríkisstjórnin og fulltrúar hennar fara með almannafé. Þeir nota fjármuni almennings til þess að braska með þá. Greiða sjálfum sér himinhá laun og braska síðan með þá á markaði. Og að hæla sér af þessari stefnu og hvernig almannafé er sólundað svona, ég mundi fara afskaplega varlega í það. Ég mundi hafa litinn á fjárlagafrumvarpinu öðruvísi næst.