Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 16:47:42 (206)

2002-10-04 16:47:42# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[16:47]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Ég er sammála því að það þurfi að taka, eins og ég hef sagt áður, heilbrigðisþjónustuna til gagngerrar endurskoðunar og sömuleiðis hver verka sérfræðinga leiði síðan til sjúkrahússinnlagnar og hver ekki. Þar vil ég ekki endilega nefna til mistök heldur skoða hvaða hluta þjónustu sinnar sérfræðingar beina til sjúkrahúsa vegna alvarleika sjúkdómanna. Að sjálfsögðu er þetta allt samhangandi kerfi og virkar hvort á móti öðru. Það er kannski það sem menn hafa ekki horft nægilega vel á, þ.e. samhengið í þjónustunni, og þegar menn ætla að spara á einum stað koma útgjöldin fram á öðrum. Samverkun heilbrigðiskerfisins er það sem við þurfum að skoða mun nánar og hefur verið skoðað annars staðar en væntanlega verður ráðin þar á bót með því að fá betri upplýsingar, bæði úr sjúkrahússkerfinu og frá öðrum aðilum, eins og t.d. heimilislæknastöðvum og heimilislæknum þar sem fastlaunakerfi er við lýði og við vitum ekki nákvæmlega hvaða verk eru unnin.