Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 18:29:17 (239)

2002-10-04 18:29:17# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[18:29]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það sem þingmaðurinn er hér að tala um er væntanlega að einkahlutafélögum hefur fjölgað að undanförnu. Út af fyrir sig er ekkert við því að segja. Við gerðum meira að segja sérstakar ráðstafanir með lagabreytingum í fyrra til að greiða fyrir því að fólk, sem hefur verið læst inni í einstaklingsrekstri og ekki getað leyst hann upp eða komið honum á milli kynslóða, gæti breytt rekstri sínum í einkahlutafélög.

Ég er ekki sannfærður um að það hafi valdið einhverri sérstakri bölvun eða vandræðum. Það verður að koma betur í ljós áður en menn fara að velta því fyrir sér hvort það þurfi sérstaklega að bregðast við þeirri þróun. En ég hef ekki orðið var við það, herra forseti.