Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 15:06:46 (336)

2002-10-08 15:06:46# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[15:06]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þessum yfirlýsingum formanns Samfylkingarinnar. Ég kýs að skilja þær svo að Samfylkingin sé sammála báðum meginþáttum tillögunnar, að það beri að leysa einkavæðingarnefnd frá störfum og það beri að stöðva einkavæðingarferlið og aðhafast ekki frekar í því.

Í greinargerð með tillögunni er nánar útskýrt hvernig við leggjum þá hluti upp, þ.e. að þessi stöðvun gildi þangað til Ríkisendurskoðun hefur lokið sinni ítarlegu úttekt á grundvelli beiðni þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og þá verði það ríkisstjórnar og Alþingis að taka ákvarðanir um framhaldið. Þetta er okkar upplegg. Og ég kýs að túlka það svo að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sé hér að lýsa stuðningi við þetta meginupplegg í málinu.

Ég er algerlega sammála því, og það sjá allir hugsandi menn, að núverandi einkavæðingarnefnd getur ekki haldið áfram. Hún nýtur ekki trausts. Þetta ferli er gjörsamlega hrunið í höndunum á mönnum. Það má segja að komin sé upp svipuð staða og stjórnvöld að lokum viðurkenndu með Landssímann, að það var ekkert annað að gera en að skipta þar algerlega um. Og það var gert. Það var skipt bæði um framkvæmdastjóra og stjórn vegna þess að það sem fyrir var var rúið trausti. Þetta var gert líka hjá Evrópusambandinu sem ég veit að hv. þm. þekkir vel til og sækir sér oft fyrirmyndir í. Það var skipt um alla brúna. Framkvæmdastjórnin var rekin af því að hún var rúin trausti og þegar svo er komið eiga menn að horfast í augu við veruleikann og segja: Svona er staðan. Við verðum að stokka algerlega upp spilin og byrja með hreint borð. Af hverju er þetta mikilvægt? Jú, það er líka vegna þess að það er ætlunin að selja þessi fyrirtæki út á markað. Um hvað snýst það? Um traust? Um tiltrú? Það er algerlega glatað að reyna að halda þessu svona áfram þegar öll þjóðin, allur markaðurinn, er með það á hreinu að þetta er ekkert nema bolabrögð og klíkuskapur, og vinnubrögðin ótæk. Þá er auðvitað engin tiltrú eftir lengur til þess að framkvæma þessa sölu eða einkavæðingu við eðlilegar aðstæður, hvort sem menn vilja það eða vilja ekki.