Orka um sæstreng

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 13:51:27 (383)

2002-10-09 13:51:27# 128. lþ. 7.96 fundur 163#B orka um sæstreng# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[13:51]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. sé kominn dálítið langt fram úr sér í þessari umræðu þegar hann talar um að hér sé verið að leggja drög að nýtingu allrar orku og allra orkulinda Íslands. Það er svo sannarlega ekki þannig því að þetta mál er á forathugunarstigi og það er ekki fyrr en eftir einhverja mánuði sem við höfum nægilegar upplýsingar fyrir framan okkur til þess að átta okkur á því hver stefna stjórnvalda á að vera til framtíðar. Ég lét það koma hér fram að ég er áhugasamari um það að nýta okkar endurnýjanlegu orku hér á Íslandi til atvinnuuppbyggingar, eins og hlýtur að vera ljóst með stefnu stjórnvalda í sambandi við t.d. uppbyggingu stóriðju á Austurlandi, heldur en að flytja orkuna til Evrópu. En ég er ekki svo einstrengingsleg að ég sé ekki tilbúin að styðja það að Landsvirkjun taki þarna þátt í ákveðinni forvinnu til þess að við höfum meiri upplýsingar.

Eins og alþekkt er stendur til að leggja hér fram frv. til nýrra raforkulaga og í tengslum við það frv. hefur mikið verið talað um einangrun Íslands á raforkumarkaðnum. Mér hefur heyrst á ákveðnum þingmönnum að það sé miður, en m.a. í samhengi við þá vinnu er mikilvægt að átta sig á því hvort það sé einhver framtíðarmúsík fyrir okkur Íslendinga að selja orkuna um sæstreng til Evrópu. Ég er svo sannarlega ekki þeirrar skoðunar eða mjög trúuð á að svo verði. Rammaáætlun er í vinnu og það er engin hætta á öðru en að hún verði komin fram áður en taka þarf einhverjar ákvarðanir í þessu máli.