Viðskiptabankar og sparisjóðir

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 15:31:37 (399)

2002-10-09 15:31:37# 128. lþ. 7.4 fundur 8. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (stofnfjárhlutir) frv., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[15:31]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Í sumar þegar þessi mál bar mikið á góma kom fram í fjölmiðlum hver þingmaðurinn á fætur öðrum og hver hæstv. ráðherra á fætur öðrum, þeir aðilar sem stóðu að lagabreytingunum sl. vor og sögðu að það sem væri að gerast í tengslum við SPRON væri ekki í samræmi við þeirra vilja og það sem þeir hugðust ná fram með lagabreytingunni. Menn voru almennt sammála um þetta, hins vegar hefði fundist þarna smuga sem óprúttnir aðilar hygðust notfæra sér og að sjálfsögðu á að koma í veg fyrir að slíkt gerist. Það sem gerðist var að stofnfjáreigendur hugðust braska með stofnfé sitt. Það er enginn að tala um að gera upptækan þennan hlut, síður en svo. Samkvæmt lögunum eiga stofnfjáreigendur að geta fengið fé sitt greitt út og uppfært samkvæmt verðlagi, en þegar að hinu kemur að þeir fara að braska með það á margföldu yfirverði þá segja menn nei. Að sjálfsögðu á að breyta lögunum í samræmi við þennan yfirlýsta vilja meiri hlutans.