Málefni aldraðra og húsnæðismál

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 16:02:05 (411)

2002-10-09 16:02:05# 128. lþ. 7.94 fundur 161#B málefni aldraðra og húsnæðismál# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[16:02]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að vekja máls á málefnum aldraðra og húsnæðismálum þeirra á Alþingi. Þetta er tímabær umræða og þörf. Í þeim efnum mætti taka á mörgum málum.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum hvar aldraðir eru í forgangsröðinni hjá þessari ríkisstjórn. Samtök þeirra hafa knúið á um bættan hag félaga sinna en ekkert hefur verið hlustað á þá. Hér hefur ástandinu í félagslega kerfinu og löngum biðlistum þar verið lýst.

Í þingbyrjun þegar fjárlagafrv. var lagt fram var ekkert tekið á málefnum og vanda aldraðra. Ekki sáust þar nokkrar úrbætur í kjaramálum þeirra. Mál aldraðra eru öll í nefnd og óvíst hverju hún skilar því fólki sem hefur svo sannarlega skilað sínu til samfélagsins. Aukin skattheimta á þennan hóp og það hvernig lífeyrir hefur dregist aftur úr launum er að gera mörgum öldruðum æ erfiðara og jafnvel ókleift að halda heimilum sínum og dvelja heima á ævikvöldinu.

Þessi staða í kjaramálunum og hækkun fasteignaskatta og annarra útgjalda er að sliga marga. Sumir hafa því neyðst til að selja ofan af sér húsnæðið. Ég taldi að það hefði verið stefna stjórnvalda að gera öldruðum kleift að dvelja sem lengst heima. Það er vissulega vilji aldraðra sjálfra og hagkvæmt fyrir alla en ríkisstjórnin gerir þeim það mjög erfitt.

Hér á landi eru 7.000 lífeyrisþegar, 80 ára og eldri, sem fá lítið sem ekkert úr lífeyrissjóðum. Stór hluti þeirra eru ekkjur sem voru heimavinnandi húsmæður. Þetta fólk greiðir eins til eins og hálfs mánaðar greiðslur frá Tryggingastofnun til baka til ríkissjóðs á ári. Lendi það inni á spítala lengur en í 120 daga á tveimur árum falla lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar niður og það fær engar tekjur nema dagpeningalús en útgjöldin falla ekki niður. Ég veit um dæmi þess að öldruð kona úr þessum hópi neyddist til þess að selja ofan af sér íbúðina eftir langvarandi veikindi vegna þessarar ómannúðlegu reglu í kerfinu. Það er örugglega ekki einsdæmi, herra forseti.