Endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 10:53:33 (426)

2002-10-10 10:53:33# 128. lþ. 8.95 fundur 168#B endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu# (aths. um störf þingsins), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[10:53]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir fyrirspurnina um þetta mikilvæga málefni. Hér er um viðamikla endurskoðun að ræða sem hefur verið boðuð. Við höfum rætt undirbúning hennar í heilbrrn. og hvernig við stöndum að henni. Ég hef tekið þá ákvörðun að kalla fólk víða að í þá endurskoðun, fá eins og ræðumaður nefndi faghópa eða fagstéttir inn í endurskoðunina og ég hef ákveðið að leita eftir þverpólitískri vinnu í endurskoðunina og kalla þá stjórnarandstöðuna að því verki. Ekki er endanlega frá gengið hvernig sú endurskoðunarnefnd verður skipuð. Það eru gallar sem fylgja því að hafa mjög stórar og fjölmennar nefndir og það getur þurft að skipuleggja vinnuna með tilliti til þess að einhvers konar miðnefnd starfi að því að draga saman sjónarmið aðila en ég hef hug á því að leita sjónarmiða sem víðast að úr stjórnmálum og frá fagstéttum til þessa verks.