Lífeyrissjóður sjómanna

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 14:31:29 (471)

2002-10-10 14:31:29# 128. lþ. 8.5 fundur 12. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (iðgjöld) frv., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[14:31]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 45/1999, um Lífeyrissjóð sjómanna.

Þetta mál er nú endurflutt í þriðja sinn, hefur verið flutt hér á tveim síðustu þingum án þess að hafa hlotið afgreiðslu eða komist aftur inn í þingsali eftir umfjöllun í nefnd.

Frumvarpið og efnisbreyting þess hljóðar svo:

,,1. mgr. 5. gr. laganna verður svohljóðandi:

Iðgjald til sjóðsins skal nema 12% af heildarlaunum og greiðir launþegi 4% og launagreiðandi 8%.``

2. gr. er eingöngu gildistökuákvæði.

Lengra er frv. ekki þótt því sé ætlað að hafa nokkuð víðtæk áhrif til þess að laga þá stöðu sem hefur verið í Lífeyrissjóði sjómanna í nokkur ár.

Síðan segir í ákvæði til bráðabirgða:

,,Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 5. gr. laganna mynda tvö prósentustig af greiðslu launagreiðanda ekki réttindi til lífeyris fyrr en tryggingafræðileg úttekt sýnir að Lífeyrissjóður sjómanna getur staðið undir framtíðarskuldbindingum sínum.``

Hér er lagt til að inngreiðslan sé til þess að laga stöðu sjóðsins því hún hefur því miður verið döpur á undanförnum árum og oft þurft að grípa til skerðinga á lífeyrisréttindum í sjóðnum.

Herra forseti. Um alllangt skeið hafa eignir Lífeyrissjóðs sjómanna ekki staðið undir framtíðarskuldbindingum sjóðsins samkvæmt tryggingafræðilegu mati. Stjórn sjóðsins hefur leitað leiða til að minnka muninn milli eigna hans og skuldbindinga. Í nokkur skipti, eins og okkur er reyndar kunnugt um á hv. Alþingi, hafa verið gerðar lagabreytingar sem allar hafa haft í för með sér mikla skerðingu á lífeyrisréttindum sjóðfélaga í Lífeyrissjóði sjómanna. Og nú er enn boðað af fjmrh. að frv. verði lagt fram um Lífeyrissjóð sjómanna og ef að líkum lætur verða réttindi sjóðfélaga enn einu sinni skert.

Þótt lagasetningin hafi yfirleitt snúið beint að lögunum um Lífeyrissjóð sjómanna vegna þess að um hann gilda sérlög, þá hafa lífeyrissjóðir annars staðar á landinu sem hafa haft sjómenn innan sinna vébanda, m.a. á Vestfjörðum, Austfjörðum, í Vestmannaeyjum og víðar, oftast nær fylgt eftir þeim aðgerðum varðandi sjómannadeildir sínar sem gerðar hafa verið í Lífeyrissjóði sjómanna. Því er frv. samið sérstaklega með Lífeyrissjóð sjómanna í huga, að hann hefur verið leiðandi í því hvernig þessar viðmiðunarreglur eru varðandi réttindi og útgreiðslur í lífeyrismálum sjómanna almennt og þau ákvæði þá verið tekin upp af stjórnum í viðkomandi lífeyrissjóðum.

Um málefni Lífeyrissjóðs sjómanna og lífeyrissjóða almennt má segja, sérstaklega þegar þeir tryggja sjómenn, að menn hafa staðið frammi fyrir því að þurfa að gera svipaða hluti og stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna hefur neyðst til að gera á liðnum árum. Enn þá er það svo að vandi Lífeyrissjóðs sjómanna er mikill þrátt fyrir þær aðgerðir sem gerðar hafa verið á undanförnum árum og miðað hafa að því að lagfæra stöðu lífeyrissjóðsins en hafa orðið til þess að skerða réttindi lífeyrisþeganna. Þrátt fyrir það vantar enn að efla eignir sjóðsins svo hann standi undir skuldbindingum samkvæmt tryggingafræðilegu mati miðað við árslok 2000 og einnig kemur fram í ársskýrslu fyrir árið 2001 að staða sjóðsins hefur ekki lagast og mun ég gera grein fyrir því hér á eftir.

Á árinu 1999 var 2.185 millj. kr., eða 3,2% halli. Með viðvarandi halla sjóðsins yfir 5% verður lögum samkvæmt að grípa til ráðstafana. En árið 2000 var hallinn 6% og vantaði upp á að sjóðurinn ætti fyrir skuldbindingum sínum. Í árslok 2001 eins og ég vék að áðan vantaði hins vegar heil 8,8% upp á að lífeyrissjóðurinn ætti fyrir skuldbindingum sínum. Staða sjóðsins er því enn þá að versna. Með viðvarandi halla sjóðsins yfir 5% verður lögum samkvæmt að grípa til ráðstafana sem felast í enn frekari lækkun réttinda sjóðfélaga, ef engar viðbótargreiðslur koma til inn í sjóðinn.

Eins og menn vafalaust muna voru sett lög á hv. Alþingi um almenna starfsemi lífeyrissjóða árið 1997 og í þeim lögum segir á þá leið, ef ég man rétt, að stjórnum lífeyrissjóða beri að aðhafast eitthvað til þess að tryggja stöðu lífeyrissjóðanna. Venjulega er nú ekki hægt að grípa til nema tvenns konar aðgerða, þ.e. annaðhvort að auka inngreiðslur í lífeyrissjóðinn ef lífeyrissjóðurinn á ekki fyrir gildandi réttindum lífeyrisþega eða þá til þess að laga stöðu hans án þess að bein réttindainnfærsla komi á móti, eins og hér er lagt til, eða að stjórnarmenn í lífeyrissjóði samkvæmt þeim lögum sem ég áður vék að frá 1997 neyðast til að grípa til aðgerða sem skerða lífeyrisréttindi og laga þar af leiðandi stöðu sjóðsins.

Ákvæðið er þannig að á meðan sjóðurinn á fyrir yfir 95% af skuldbindingum sínum þarf sjóðurinn ekki að aðhafast neitt. En þegar að því kemur að lífeyrissjóður er ekki talinn eiga fyrir meira en 90--95% af skuldbindingum sínum kemur viðvörun og menn þurfa að meta hvort þeir ætla að aðhafast eitthvað og verða þá að gera það a.m.k. ef óbreytt ástand varir um lengri tíma en fjögur ár, þ.e. það ár sem staðan kom upp og síðan fjögur til viðbótar, því eigi má slíkt ástand vara lengur en fimm ár samtals.

Stefni hins vegar niður fyrir það að lífeyrissjóður eigi fyrir 90% af skuldbindingum sínum ber stjórn viðkomandi lífeyrissjóðs, sjái hann ekki fram á betri tíð og auknar inngreiðslur, að grípa þegar í stað til aðgerða sem rétta stöðu lífeyrissjóðsins.

Lög um almenna starfsemi lífeyrissjóða í landinu kveða því mjög stíft á um að stjórnir lífeyrissjóðanna hafa ákveðna ábyrgð á stöðu sjóðsins.

Síðan má ekki aftur auka réttindi sjóðfélaga fyrr en lífeyrissjóðurinn er kominn yfir 105%, þá má fara að greiða út. Frá því að menn detta niður fyrir 90% og þangað til þeir geta aftur farið að lagfæra réttindi sjóðfélaga þarf að auka eignastöðu sjóðsins um heil 15%. Á meðan varir kyrrstaðan samkvæmt lögum frá 1997 um almenna starfsemi lífeyrissjóða.

Með því að hækka lögbundið framlag launagreiðanda í Lífeyrissjóð sjómanna um 2%, án þess að lífeyrisréttindi sjóðfélaga aukist, eins og tillagan gerir ráð fyrir, er stigið mikilvægt skref í þá átt að brúa það sem upp á vantar til að sjóðurinn eigi fyrir framtíðarskuldbindingum sínum. Auk þess er það réttlætismál að launagreiðendur leggi fram sinn skerf og taki þátt í því að koma sjóðnum á réttan kjöl.

Það er nefnilega þannig að atvinnurekendur eiga sæti í stjórnum lífeyrissjóða og bera á meðan þeir sitja þar ábyrgð á því að lífeyrissjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar. Það er auðvitað markmið lífeyrissjóðanna að reyna að tryggja einhvern viðunandi rétt lífeyrisþeganna. Ýmis rök hníga til þess að atvinnurekendur komi að þessu máli, m.a. með þeim tillögum sem hér eru lagðar til. Greiðslur Lífeyrissjóðs sjómanna vegna örorkulífeyris eru t.d. afar háar, sem er afleiðing af því hversu hættulegt sjómannsstarfið er. Og á undanförnum árum hefur örorkulífeyrir t.d. komist allt að því nálægt 45% af útgreiðslu úr sjóðnum og var á árinu 2001 43% af útgreiddum bótum úr sjóðnum af heildarlífeyrisgreiðslum í Lífeyrissjóði sjómanna. Sambærilegt hlutfall hjá öðrum lífeyrissjóðum er mun lægra og í sumum tilfellum allt niður í 20% og finna má dæmi um einstaka lífeyrissjóði sem fara enn neðar en það. Þarna er Lífeyrissjóður sjómanna og kannski aðrir lífeyrissjóðir sem hafa sjómenn innan sinna vébanda í raun og veru að taka á sig mun meiri og þyngri ábyrgð en gerist almennt í öðrum lífeyrissjóðum. Þetta tengist auðvitað hárri slysatíðni sjómanna og hættulegu sjómannsstarfi, sem og starfstengdum skaða á stoðkerfi eins og bæklun í baki.

En það hlýtur hins vegar að vera spurning á móti hvort útgerðinni sé þá ekki rétt ætlað að koma sterkar inn í þá stöðu sem komin er upp í Lífeyrissjóði sjómanna og jafnvel öðrum lífeyrissjóðum sem tryggja sjómenn innan sinna vébanda þar sem lífeyrissjóðurinn virkar svona stórt m.a. í örorkuþættinum, nánast eins og tryggingafélag.

Ég lít a.m.k. svo á að séu útgerðarmenn ekki á nokkurn hátt tilbúnir til að koma að því vandamáli sem núna er í Lífeyrissjóði sjómanna og hefur farið vaxandi því miður, eins og hér er lagt til, þá stafar vandamálið annars vegar af mjög hárri örorku sem greidd er út í heildarlífeyrisgreiðslum og hins vegar af þeim pakka sem settur var inn sem félagsmálapakki á sínum tíma varðandi hina svokölluðu 60 ára reglu, en henni hefur aldrei fylgt nein fjárveiting. 60 ára reglan var sett í lausn kjaradeilu sjómanna á sínum tíma, árið 1981 ef ég man rétt, og varð þá til þess að Alþingi samþykkti hér samhljóða 60 ára reglu til handa sjómönnum varðandi það að þeir mættu taka lífeyri frá 60 ára aldri, en alla fjármögnun vantaði.

Þetta hefur orðið til þess að meðan 60 ára reglan var í gildi, en það er búið að gera hana hlutlausa núna í sjóðnum, var greiðslan til manna sem byrjuðu að taka lífeyri 60 ára í raun og veru tekin af öðrum sjóðfélögum. Ekki var til inneign fyrir henni sérstaklega og þar sem lagasetningunni á Alþingi fylgdi engin fjármögnun lenti þessi kvöð á sjóðnum og hefur orðið til þess að skerða stöðu annarra sjóðfélaga og leggja sérstakar byrðar á Lífeyrissjóð sjómanna.

Þær byrðar voru metnar fyrir ári svo að þær jafngiltu 1,4 milljörðum kr. sem sjóðurinn hefði greitt út vegna 60 ára reglunnar sem ekki hefur verið til innstæða fyrir og þar af leiðandi hefur þeirri upphæð verið dreift á herðar annarra sjóðfélaga og á sjóðinn sjálfan. Og það er auðvitað hluti af því að sjóðurinn stendur illa.

Sjómenn hafa verið afar ósáttir við það að aldrei skyldi hafa fylgt fjárveiting og fjármögnun á þessu loforði Alþingis varðandi regluna um 60 ára lífeyrisaldur, því þetta var jú félagsmálapakki á sínum tíma og sjómenn gáfu eftir ákvörðun í fiskverði, hækkun fiskverðs, sem nam að mig minnir upp undir 3% á þeim tíma til að ná því fram.

[14:45]

Þegar sjómannasamtökin höfðu gengið bónarveg til hverrar ríkisstjórnarinnar á fætur annarri og hvers fjmrh. á fætur öðrum allar götur frá árinu 1981 til þess að finna fjármögnun fyrir þessu loforði endaði það með því að Lífeyrissjóður sjómanna fór í mál við íslenska ríkið til þess að fá þessa kröfu viðurkennda. Því miður tapaðist þetta mál í Hæstarétti. Ríkið var ekki talið bera ábyrgð á því að það þyrfti að fjármagna þessa 1,4 milljarða þrátt fyrir að lagasetningin hefði verið samhljóma á Alþingi og að gefið hefði verið loforð um að skoða þennan vanda þegar hann mundi myndast og leysa hann síðar. En þau loforð voru aldrei efnd.

Því er ekkert að leyna að sjómannasamtökin og stjórn lífeyrissjóðsins sérstaklega eru auðvitað mjög ósátt við niðurstöðu Hæstaréttar. Stjórnin hefur í raun og veru ákveðið að vísa þessu máli til mannréttindanefndar Evrópu því eins og það er allt í pottinn búið finnst mönnum þetta afar ósanngjörn niðurstaða.

Meðal annars vegna þessa hæstaréttardóms og vegna áframhaldandi vanda í Lífeyrissjóði sjómanna sem kom upp á síðasta ári --- í ljós kom að 8,8% vantaði upp á að hann ætti fyrir skuldbindingum sínum --- standa menn frammi fyrir því að það verður að grípa til einhverra aðgerða. Það er nú einu sinni svo að á lista ríkisstjórnarinnar yfir þau mál sem lögð verða inn í þing er boðað að fjmrh. leggi fram sérstakt frv. um Lífeyrissjóð sjómanna. Það er á lista ríkisstjórnarinnar og kemur sennilega fram á haustdögum.

Hvað skyldi að líkindum felast í þessu frv. um Lífeyrissjóð sjómanna sem okkur er ætlað að afgreiða á haustdögum í þinginu? Ég tel næsta víst, af því að stjórnin á engan annan kost samkvæmt lögunum um almenna starfsemi lífeyrissjóða í landinu, að þegar frv. birtist í þingsölum verði í því ákvæði um að skerða enn frekar réttindi í Lífeyrissjóði sjómanna. Og ég hef af því spurnir á hvern veg það muni verða. Það er mjög líklegt að tekið verði á makalífeyrinum, hann verði lækkaður, og aðrar þær aðgerðir gerðar sem stjórn lífeyrissjóðsins telur að færa megi rök fyrir að séu þó kannski skásta leiðin af öllum slæmum til að laga stöðu sjóðsins. En eins og áður sagði ber lífeyrissjóðnum og stjórnarmönnum í honum að koma með tillögur að bættri stöðu sjóðsins.

Herra forseti. Það er enn frekari ástæða til að endurflytja hér í þriðja sinn þetta frv. mitt miðað við þær upplýsingar sem ég hef greint hér lauslega frá. Ég veit að hér verður lagt fram frv. um enn frekari skerðingu á lífeyrisréttindum í Lífeyrissjóði sjómanna. Allt er það til að mæta þeirri stöðu sem uppi er í sjóðnum, og stór hluti af þeirri stöðu er á ábyrgð ríkisins að mínu viti, hvað svo sem hæstaréttardómurinn hefur sagt.

Ég er algjörlega ósammála því að á hv. Alþingi sé hægt að samþykkja að veita skuli mönnum ákveðinn rétt þegar þeir eru komnir á ákveðinn aldur og eru búnir að starfa ákveðið lengi til sjós en að aðrir sjómenn í lífeyrissjóðnum skuli borga þeim réttindin, Alþingi hafi þar enga ábyrgð, ríkisstjórnin ábyrgðarlaus. Ég tel gjörsamlega ólýðræðislegt og óþolandi að svona skuli hafa tekist til í þessu máli. Þess vegna geri ég mér vonir um að nú, á þessu þingi þegar þingmenn sjá að enn eina ferðina þurfi að takast á við það að skerða réttindi í Lífeyrissjóði sjómanna, herra forseti, fái þetta frv. sem nú er lagt fram í þriðja sinn kannski verðugri umfjöllun í hv. nefnd en að verða svæft eitt árið enn. Það er búið að skerða hin almennu réttindi og nú ætla menn m.a. að fara í makabæturnar vegna þess að þeir telja, og kannski með fullum rétti, að makabæturnar séu ívið skárri en megi finna dæmi um í öðrum lífeyrissjóðum. Því á m.a. að grípa til þess en auðvitað munum við sjá frv. þegar það kemur hér inn.

Ég trúi því ekki, herra forseti, að það verði hlutverk Alþingis á þessu þingi að samþykkja enn eina ferðina skerðingu á lífeyrisréttindum í Lífeyrissjóði sjómanna þegar fyrir liggur frv. um að bæta megi stöðu sjóðsins og að útgerðarmenn taki á sig hluta af þeirri skuldbindingu að laga stöðu sjóðsins. Útgerðarmenn hafa notið þess á undanförnum árum að lífeyrissjóðir sjómanna hafa nánast virkað eins og tryggingafélag fyrir útgerðina. Örorkulífeyrisþátturinn í lífeyrissjóðum sjómanna er glöggt dæmi um það en hann mun vera hæstur í Lífeyrissjóði Vestmannaeyja, 45% ef ég man rétt, en 43% í Lífeyrissjóði sjómanna.

Þetta vandamál, hvað örorkubæturnar eru þungar, er til í öllum lífeyrissjóðum sem tryggja sjómenn og það kemur að hluta til af starfinu, bæði vegna slysatíðni og eins vegna álags á líkamann við það að vera á sjó. Af öllum tilefnum má finna fyrir því rök að lífeyrissjóðir sjómanna hafa að hluta til virkað eins og tryggingafélag í gegnum tíðina, tekið við mönnum og haldið þeim uppi þegar starfsævi þeirra hefur lokið vegna slysa og veikinda, starfstengdra veikinda oftast nær.

Ég ætla ekki að hafa miklu lengra mál um þetta, herra forseti. Ég tel mig vera búinn að draga hér fram helstu rök fyrir því að útgerðarmenn séu ekki alveg ábyrgðarlausir í þessu máli. Þeir eiga ekki að vera það. Þeir eiga aðild að Lífeyrissjóði sjómanna. Þeir eru þar í stjórn. Þeir tóku þátt í því á árinu 1981 að þessi 60 ára regla var sett inn og fiskverðshækkun frestað í staðinn. Þessi aðgerð var auðvitað einnig kynnt útvegsmönnum á þeim tíma og samþykkt. Ég hygg að útvegsmenn á þeim tíma hafi líka gert sér grein fyrir því, eða vonast til þess, að ríkið mundi með einhverjum hætti finna fjármögnunarleið til að bæta þann halla og þann kostnað sem safnaðist upp í Lífeyrissjóði sjómanna vegna þessarar reglu um 60 ára rétt í lífeyrissjóði.

Í fjöldamarga lífeyrissjóði greiða ýmsir atvinnurekendur mun hærri prósentu en þau 6% sem íslenskir útgerðarmenn greiða í Lífeyrissjóð sjómanna. Ég hygg meira að segja að nú nýlega, á síðasta ári, hafi verið samið um það við Alþýðusamband Íslands að atvinnurekendur greiddu þar 7% í lífeyrissjóði, að vísu með einhverjum skilyrðum. Að sjálfsögðu neituðu útgerðarmenn að það næði til Sjómannasambands Íslands sem þó var aðili að þeirri undirskrift og aðili að þeim samningi að því er þeir töldu, og telja.

Herra forseti. Nú er sem sagt komið að íslenskum útgerðarmönnum að sýna í verki að þeir vilji laga stöðu Lífeyrissjóðs sjómanna, ekki til að mynda þar ný viðbótarréttindi fyrir núverandi lífeyrisþega heldur til að koma í veg fyrir að þau réttindi sem þegar hafa verið skert í tvígang með lögum frá Alþingi verði skert í þriðja sinn, og að þeir sýni þá ábyrgð að þeir hafi notið Lífeyrissjóðs sjómanna í atvinnurekstri sínum. Það hafa þeir sannarlega gert í sambandi við örorkubætur því að ef menn hefðu ekki átt rétt á þessum örorkubótum í Lífeyrissjóði sjómanna hefði komið miklu harðari krafa frá sjómannasamtökunum um að útgerðin bæri þá tryggingalegu áhættu sem starfinu fylgir.

Þess vegna tel ég, herra forseti, að hér sé um algjört sanngirnismál að ræða. Ég get varla trúað því að nú eigi að standa enn á ný fyrir skerðingu á lífeyrisréttindum og að útgerðarmenn ætli sér að horfa þegjandi á það án þess að koma neitt að því að laga stöðuna í Lífeyrissjóði sjómanna. Tillagan gengur ekki inn á nýja réttindainnstöðu heldur tímabundna inngreiðslu um 2% þar til staða sjóðsins er komin réttu megin og hallinn horfinn og menn geta átt von á því að lífeyrissjóðurinn haldi velli, að bæturnar haldi raungildi sínu en séu ekki skertar reglulega á tveggja og þriggja ára fresti.