Tryggingagjald

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 17:13:08 (511)

2002-10-14 17:13:08# 128. lþ. 9.5 fundur 181. mál: #A tryggingagjald# (lækkun gjalds o.fl.) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[17:13]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Megininntak þessa frv. til laga um um breyting á lögum um tryggingagjald, með síðari breytingum, sem hæstv. fjmrh. hefur mælt fyrir, er að fella eða lækka hámarksheimild til álagningar tryggingagjalds. Með skattbreytingum sem voru samþykktar á Alþingi fyrir tæpu ári síðan, á liðnu þingi, voru að tillögum meiri hlutans samþykktar verulegar breytingar á sköttum, þar á meðal hækkun á hinum almenna hluta tryggingagjaldsins úr 4,34% í 5,11%. En í sérstökum efnahagsaðgerðum sem ríkisstjórnin í samráði við verkalýðshreyfinguna greip til á vordögum til þess að hamla gegn verðhækkunum var ákveðið að nýta ekki þessa heimild til fulls á næsta ári, þ.e. árinu 2003, heldur einungis upp í 4,84% og frv. sem nú er flutt hér er til þess ætlað að festa það í lögum að heimildin stöðvist við 4,84% af gjaldstofni.

Sú viðamikla breyting sem gerð var á skattalögunum á liðnu ári að tilhlutan ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. fólst einmitt í því að lækka tekjuskatt á fyrirtæki úr 30% niður í 18%. Sömuleiðis var tryggingagjald þá líka hækkað, sem var tilfærsla gjalds á atvinnureksturinn, þ.e. frá því að skattleggja tekjuafganginn yfir í að skattleggja launakostnaðinn.

Sú breyting er svo sem í takt við aðrar breytingar sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir, þ.e. að færa skattbyrðina og hlutdeildina í skattbyrðinni í auknum mæli til almennra launatekna, beint á einstaklingana og óbeint á fyrirtækin sem eru byggð upp þannig að stór hluti rekstrarkostnaðar þeirra eru laun. Þannig er sem sagt skattheimta á almenn laun aukin en hlutur þeirra sem fá rauntekjur og tekjuafgang lækkaður.

[17:15]

Að mati Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er stefna ríkisstjórnarinnar í skattamálum röng. Ef við lítum t.d. á áhrif þessa fyrir áætlunina á tekjur næsta árs er það svo að tryggingagjaldið sem við erum að tala um hækkaði um 0,5%, fór úr 4,34% og upp í 4,84%. Áhrifin eru þau að áætluð tryggingagjöld á milli ára, þ.e. frá árinu 2002 til 2003, hækka um 4 milljarða kr. Sé horft til þess að þessir skattar bitna fyrst og fremst á atvinnugreinum með laun sem stóran hluta rekstrarkostnaðar er þetta stefnumarkandi í sjálfu sér. Þetta lendir á fyrirtækjum í frumvinnslugreinum, landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaði. Þetta kemur niður á ferðaþjónustu, þjónustu sveitarfélaga og ríkis, einnig sprotafyrirtækjum og einstaklingsfyrirtækjum og litlum fyrirtækjum í þróunarstarfi. Þetta lendir fyrst og fremst á þeim. Það er verið að skattleggja þessa aðila á nýjan hátt í meiri mæli en verið hefur.

Með lækkun á tekjuskatti fyrirtækja mun sá skattur, samkvæmt þessu, lækka um 2 milljarða kr. á milli ára. Þannig er skattbyrðin færð yfir á launafólk og fyrirtæki með miklar launagreiðslur.

Þetta er skattastefnan sem þessi ríkisstjórn beitir sér fyrir. Hin svokölluðu breiðu bök njóta skattaívilnana en aukin skattheimta á launatekjur, lágtekjufólk og fyrirtæki með háan launakostnað starfsemi sinnar vegna.

Á síðustu árum hafa orðið meiri breytingar á innheimtu og álagningu tryggingagjalds en þessar breytingar einar segja til um. Til skamms tíma nutu ákveðnar atvinnugreinar enn þá lægri gjaldheimtu hvað tryggingagjaldið varðar, t.d. greinar sem tengdust fiskveiðum, iðnaði, landbúnaði, hugbúnaðariðnaði, kvikmyndaiðnaði, gistingu og veitingarekstri, svo nokkuð sé nefnt. Þessar greinar nutu enn lægra tryggingagjalds og þess vegna verður þessi breyting, sem kemur til framkvæmda á næsta ári, þeim mun þyngri. Þetta eru einmitt greinar þar sem meginhluti rekstrarkostnaðarins er laun og er liður í þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að skattleggja sem mest laun og launatengda vinnu.

Þetta stingur líka í stúf, herra forseti, við að skattar á arðgreiðslur og fjármagnstekjur eru einungis 10%. Það er svo eðlilegt og sjálfsagt að venjulegur sparnaður fólks sé ekki skattlagður en þegar stór hluti af tekjum einstaklings eða fyrirtækis eru arðgreiðslur og fjármagnstekjur á náttúrlega að sjálfsögðu að skattleggja þær tekjur eins og verið er að skattleggja almennar launatekjur. Þar er ríkisstjórnin á öðru máli, ívilnar þeim sem eiga mikla inneign og hirða háan arð. Þeir sem þannig fá tekjur sínar komast hjá því að greiða eðlilega skatta af.

Herra forseti. Það er að vissu leyti fagnaðarefni að ríkisstjórnin skuli hafa verið þvinguð til að snúa nokkuð til baka með þá hækkun sem hún vildi keyra fram á síðasta þingi á tryggingagjaldi, að hún skuli nú knúin til að ganga nokkuð til baka með það. En engu að síður, herra forseti, er þessi aukna gjaldtaka sem á að koma til framkvæmda á næsta ári, upp á 4,84%, verulega íþyngjandi fyrir atvinnugreinar með háan launakostnað. Þetta er röng stefna að mati okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði.

Ég vil einnig inna hæstv. fjmrh. eftir því hvaða reglur varðandi innheimtu tryggingagjalds gilda fyrir erlend fyrirtæki sem eru hér með starfsemi, t.d. verktaka með erlenda starfsmenn sem vinna hér tímabundið. Hvaða reglur gilda varðandi greiðslur tryggingagjalds af slíkum vinnukrafti? Hvernig virkar innheimta t.d. tryggingagjalds fyrir erlenda ríkisborgara sem vinna hér tímabundið? Virkar það þá eins fyrir íslenska ríkisborgara sem vinna á vegum íslenskra fyrirtækja erlendis en njóta jafnframt réttinda sem íslenskir ríkisborgarar, íslenskra atvinnuréttinda og launatengdra réttinda? Hvernig er farið með innheimtu tryggingagjalds af íslenskum ríkisborgurum á vegum íslenskra fyrirtækja erlendis? Ég hef ekki fundið í þeim lagatextum um þau mál sem ég hef skoðað hvernig með þau er farið.

Herra forseti. Þar sem meginefni þessa frv. er lækkun á óréttlátum skatti frá þeim heimildum sem ríkisstjórnin hefur aflað sér á sl. ári þá tel ég eðlilegt að styðja frv. og vona að það fái skjótan framgang á vegum þingsins.