Samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 13:52:59 (529)

2002-10-15 13:52:59# 128. lþ. 10.94 fundur 174#B samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[13:52]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Þetta er athyglisverð umræða og vert að þakka hv. málshefjanda. Um hvað snýst þessi umræða? Hún snýst í raun um hve stór sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi mega vera.

Nú er það svo, herra forseti, að þau fiskvinnsluhús sem eru starfrækt í dag skipta hundruðum. Sum þeirra eru stór, önnur eru lítil og allt þar á milli. Sum þessara fyrirtækja hafa leitast við að auka umsvif sín með samruna og öðrum aðgerðum. Samkeppnin er gríðarlega hörð um takmarkað hráefni og verður hörð meðan aðgengi að auðlindinni er takmarkað. En hvers vegna hafa sum fyrirtæki en önnur ekki leitast við að stækka?

Ég vil sérstaklega nefna tvennt. Tækni hefur fleygt gríðarlega fram. Menn hafa viljað fjárfesta í stærri og dýrari skipum. Dýrari búnað hefur þurft til veiðanna. Með öðrum orðum, menn hafa þurft á meira fjármagni að halda. Menn hafa þurft meiri veltu til að geta staðið undir slíkum fjárfestingum.

Í annan stað hafa forsvarsmenn slíkra fyrirtækja viljað fjölga stoðum undir rekstri sínum og vera betur í stakk búnir til að takast á við bæði náttúrulegar og markaðslegar sveiflur, vera ekki háðir einhæfri framleiðslu. Með þeim hætti hafa menn viljað geta sótt fram á alþjóðlegum markaði en, eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra, eru íslensk sjávarútvegsfyrirtæki fremur lítil. Af þessum tveimur ástæðum má því segja rökrétt að menn vilji stækka.

En grundvallarspurningin sem er verið að velta upp hér er: Hversu stór vilja menn hafa þau? Vilja menn að Alþingi taki ákvörðun um það? Vilja menn láta markaðinn þróa það og greinina sjálfa?

Ég vil, herra forseti, beina því til hv. málshefjanda hvort hún telji að fyrirtæki í dag séu orðin of stór. Hvar ætti að setja mörkin?