Aðgerðir til að efla löggæslu

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 13:43:52 (574)

2002-10-16 13:43:52# 128. lþ. 12.1 fundur 67. mál: #A aðgerðir til að efla löggæslu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., LB
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[13:43]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að bera þessa fyrirspurn fram. Því miður held ég að við verðum að viðurkenna að lítið sem ekkert hefur gerst í lögreglumálum undanfarin þrjú ár. Við höfum aðeins horft upp á það að embætti ríkislögreglustjóra hefur vaxið og tekið mest það fjármagn sem komið hefur inn í löggæsluna.

Ég vil líka nefna það sérstaklega í þessari umræðu að nú nýverið toppaði Rangárvallasýsla met Kópavogs, þ.e. nú er einn lögreglumaður í Rangárvallasýslu á móti hverjum 1.070 íbúum sem þar búa, og það er eitt af afrekum hæstv. ráðherra. Nei, virðulegi forseti, því miður hefur lítið sem ekkert gerst undanfarin þrjú ár sem hægt er að segja að hafi eflt eða aukið almenna löggæslu. Við höfum horft á hana gefa eftir meðan eitt embætti hefur fitnað greinilega undir sérstökum verndarvæng og sérstakri velvild hæstv. dómsmrh. Ég held að það sé orðið tímabært að við snúum af þeirri braut.