Starfssvæði og verkefni Suðurlandsskóga

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 15:08:18 (612)

2002-10-16 15:08:18# 128. lþ. 12.7 fundur 101. mál: #A starfssvæði og verkefni Suðurlandsskóga# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[15:08]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég get upplýst hæstv. ráðherra um hvað ég er að fara. Ég er að vonast til eins og ég sagði í upphafsræðu minni að lögunum verði breytt þannig að skógræktarfélög, sveitarfélög og áhugamannafélög hafi möguleika á að gera samning við Suðurlandsskóga á sama hátt og bændur á lögbýlum. Það er eina leiðin til að hægt sé að koma af stað einhverjum skógræktarverkefnum á Suðurnesjum, vegna þess eins og ég sagði áðan að það eru engir bændur í þess orðs merkingu sem eru búandi á lögbýlum á Suðurnesjum. Sá gjörningur sem hæstv. ráðherra stóð fyrir fyrir tveimur árum að taka Suðurnesin undir Suðurlandsskóga --- ég geri ráð fyrir að einhver meining hafi verið á bak við það hjá hæstv. ráðherra --- þ.e. að reyna að auka skógræktaráhuga og auka verkefnin sem hafa fram að þessu verið lítil á Suðurnesjum með því að teygja svæði Suðurlandsskóga í vesturátt.

Eins og hæstv. ráðherra veit voru hugmyndir í gangi um að sérstakt skógræktarverkefni sem héti Suðurnesjaskógar yrði sett á laggirnar og ég minntist á það við hæstv. landbrh. á sínum tíma og var ekki illa tekið í það. En það verkefni var náttúrlega hugsað fyrir Suðurnesin en alls ekki til þess að eyðileggja fyrir bændum annars staðar á landinu, síður en svo, það var alls ekki meiningin. Og ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra viti það vel.

Varðandi þau verkefni sem eru í gangi --- ég veit að starfsmenn Suðurlandsskóga eru að reyna að gera það sem hægt er í stöðunni. Þeir hafa afskaplega lítið svigrúm til þess að geta gert nokkurn skapaðan hlut vegna þess að lögin um Suðurlandsskóga eru þannig að ekki er svigrúm fyrir starfsfólkið að fara í þá vinnu.