Rannsóknir á nýjum orkugjöfum

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 15:24:13 (619)

2002-10-16 15:24:13# 128. lþ. 12.8 fundur 104. mál: #A rannsóknir á nýjum orkugjöfum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[15:24]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég á það sameiginlegt með þeim þingmönnum sem hér hafa talað að ég hef afar mikinn áhuga á möguleikum Íslendinga á að taka þátt í vinnunni við að finna upp og þróa nýja orkugjafa. Og ég vil þakka hv. þm. fyrir þessa fyrirspurn.

En ég vil vekja athygli á því sem kom fram í svari hæstv. ráðherra að það er engin stefna af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar í vetnisvæðingu á Íslandi. Það er bara gert svona dittinn og dattinn og hipsum happs, og það er auðvitað til skammar hvernig ríkisstjórn Íslands slær sér upp á því á erlendum vettvangi að vera í fararbroddi í vetnisvæðingu. Hæstv. ráðherra segist vera afar stolt af því að við skulum standa þarna í stafni og leiða þá vinnu, en það er engri stefnu fylgt annarri en þeirri að gera hv. þm. Hjálmar Árnason út af örkinni sem vetnispostula Íslands og gerðar eru fínar fréttir í fjölmiðlum um það að hann sé að taka þátt í fínni vinnu í útlöndum. Gott og vel. Mér finnst það fínt mál og við skulum vera stolt af því sem Íslendingar gera, en við skulum standa að því á þann hátt að sómi sé að og unnin sé einhver málefnaleg stefna um þetta, en ekki þetta stefnuleysi sem nú ríkir.