Alþjóðasamningur um verndun túnfiska í Atlantshafi

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 14:12:01 (731)

2002-10-29 14:12:01# 128. lþ. 15.7 fundur 243. mál: #A alþjóðasamningur um verndun túnfiska í Atlantshafi# þál., ÖHJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 128. lþ.

[14:12]

Örlygur Hnefill Jónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. 7. þm. Reykv., Össuri Skarphéðinssyni, um hvað það er mikilvægt að hefja rannsókna- og tilraunaveiðar á þessari merku fisktegund sem hér er til umræðu.

Samfylkingin hefur lagt fram á hinu háa Alþingi þáltill. um að fara í auknar veiðar og rannsóknir á vannýttum fisktegundum. Það er mikilvægt að styðja líka við allt frumkvöðlastarf sem verið er að vinna í þessum veiðum. Einstaklingar eða fyrirtæki eru að fara út á nýjar brautir og fiskveiðiþjóð á að styðja vel við bakið á frumkvöðlum í þessu. Það gildir um þá sem eru að veiða túnfiskinn. Það vil ég segja líka fyrst rætt er um túnfisk --- við erum nú komnir svolítið inn á venjulegt svið hæstv. landbrh. sem hér talar sem utanrrh. --- að á Þórshöfn er veiddur kúfiskur. Það þarf að styðja við bakið á þeim aðilum sem eru að vinna þetta frumkvöðlastarf.