Búnaðarlög

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 15:08:05 (742)

2002-10-29 15:08:05# 128. lþ. 15.8 fundur 241. mál: #A búnaðarlög# (erfðanefnd) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 128. lþ.

[15:08]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Dalir og gljúfur eiga undir högg að sækja, segir hv. þm. Ég man eftir því að þegar ég var barn þá hurfu stundum hólar og lautir í túninu heima eða fyrir túninu heima. Það þurfti að rækta til þess að framleiða og skapa landbúnaðarafurðir. Það er auðvitað um þetta sem málið snýst. Við verðum að velja og hafna. Sumt ber að vernda og það á að marka skýrari stefnu um það en verið hefur. Það er mitt mat. Sumu á aldrei að fórna. Öðru verðum við að fórna fyrir lífskjörin. Við sjáum á mörgum þeim framkvæmdum sem hafa átt sér stað í gegnum öldina síðustu að fórnin var þess virði að skapa hér lífskjör sem eru einhver þau bestu sem þjóð eru búin í veröldinni. Um þetta snýst hin pólitiska umræða og í þessu þurfum við að taka afstöðu.

Hv. þm. spyr um áætlun. Ég get ekki svarað því hér og nú. Ég hef ekki það skýra mynd af því. En ég býst við því að það sé og mér finnst sjálfsagður hlutur að nefndin fari yfir það. Um nefndirnar síðan sem vinna núna að því að efla landbúnaðarskólana get ég heldur ekki rætt undir þessum lið. Það starf er í fullum gangi. Skipaður var starfshópur í kringum hvern skóla til þess að vinna framtíðaráform því að landbúnaðurinn í hinni fjölbreyttu mynd þarf á því að halda að eignast sterkari skóla. Hann þarf líka á því að halda að ná til sín besta og duglegasta fólkinu til þess að vinna í náttúru þessa lands við framleiðslu og í kringum hina sérstæðu bústofna og einstöku náttúru sem Ísland hefur að geyma.