Velferðarsamfélagið

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 16:21:56 (751)

2002-10-29 16:21:56# 128. lþ. 16.6 fundur 22. mál: #A velferðarsamfélagið# þál., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 128. lþ.

[16:21]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um umbætur í velferðarmálum og þróun velferðarsamfélagsins. Að þáltill. standa allir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Hér er á ferðinni þingmál sem hefur verið flutt á undangengnum þremur þingum. Það er breytt og lagað að breyttum aðstæðum en að uppistöðu til er það hið sama.

Þingmálið gengur út á að fela ríkisstjórninni að gera rammaáætlun um markvissar umbætur í velferðarmálum og framtíðarþróun velferðarsamfélags á Íslandi.

Kannanir benda til þess að félagslegrar mismununar sé farið að gæta innan velferðarþjónustunnar hér á landi. Íslendingar eiga ekki að sætta sig við að slíkt gerist. Með þessari þingsályktunartillögu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er lagt til að hafin verði gagnsókn til að styrkja og bæta velferðarkerfið. Það mun gagnast öllu samfélaginu, gera það kröftugra og betur í stakk búið að takast á við verkefni í nútíð og framtíð. Mikilvægt er að horft sé til langs tíma og mörkuð uppbyggileg stefna til að skapa velferðarsamfélagi framtíðarinnar traustan grunn. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur áherslu á að í allri stefnumótun verði kvenfrelsissjónarmið lögð til grundvallar og allar ákvarðanir stjórnvalda metnar með tilliti til þess hvaða áhrif þær hafa á stöðu kvenna.

Sú áætlun sem við leggjum til að gerð verði á að taka til helstu þátta velferðarþjónustunnar og ég ætla að nefna nokkra þætti sem vikið er að í þáltill.

Við leggjum til að gerð verði heildarendurskoðun á almannatryggingalögum með það að meginmarkmiði að tryggja öllum sem þurfa að reiða sig á almannatryggingar laun, samfélagslaun, sem duga til framfærslu og binda í lög að slík laun fylgi fortakslaust almennri launaþróun. Þetta er grundvallarbreyting sem við leggjum hér til á nálgun. Við teljum mikilvægt að horfið verði frá bóta- og ölmusuhugsunarhætti sem enn gætir allt of mikið í almannatryggingakerfinu og þess í stað tekið upp hugtakið samfélagslaun. Við segjum eins og ég nefndi að slík laun eigi fortakslaust að fylgja almennri launaþróun.

Almannatryggingar eða greiðslur úr almannatryggingakerfinu fylgja almennri launaþróun. Reyndar er sú regla sem fest var í lög fyrir fáeinum árum ekki alvond vegna þess að almannatryggingar eða greiðslur úr almannatryggingakerfinu eiga að fylgja almennri launaþróun. Ef hins vegar um samdrátt er að ræða í kaupmætti, þá á neysluvísitala að gilda. Þetta er ekki alvond regla, því hún ver þá sem njóta slíkra greiðslna kaupmáttarskerðingu á samdráttartímum.

Það sem hins vegar hefur verið gagnrýnt á undanförnum árum er að öryrkjar og atvinnulausir voru ekki látnir njóta þeirra kjarabóta sem áunnust á vinnumarkaði undir lok 10. áratugarins, því sú var tíðin að bæturnar voru tengdar tilteknum launaflokkum. Lægstu launaflokkarnir sem bæturnar voru bundnar við voru hækkaðir mest undir lok 10. áratugarins. Áður en þetta var gert var slitið á tengslin við almannatryggingakerfið og öryrkjar og atvinnulausir urðu þar af leiðandi af þeirri kaupmáttaraukningu sem láglaunafólk naut á þeim árum. Reyndar hefur það verið svo sum árin, jafnvel eftir að breytingin var gerð á lögunum í þá veru sem ég nefndi, a.m.k. var það eitt árið að bæturnar hækkuðu hvorki í takt við almenna launaþróun né neysluvísitölu. Við leggjum því til að það verði bundið í lög að slík samfélagslaun fylgi fortakslaust almennri launaþróun.

Þá viljum við tryggja öryrkjum sjálfstæðan einstaklingsbundinn rétt til framfærslu án tillits til hjúskaparstöðu. Þetta er grundvallaratriði sem menn tókust m.a. á um hér í þingsal í tengslum við öryrkjadóminn margfræga. Ef einstaklingur er atvinnulaus er litið á hann sem sjálfstæðan einstakling og honum tryggðar atvinnuleysisbætur, en tekjur öryrkja hins vegar taka mið af tekjum maka. Að sjálfsögðu á hann að lifa sínu sjálfstæða lífi og fá tekjur óháð tekjum makans. Þetta er grundvallaratriði að okkar áliti.

Við víkjum að hlutdeild almannatrygginga í tannlæknaþjónustu og viljum efla forvarnastarf. Nokkuð hefur áunnist á því sviði á undanförnum árum, m.a. hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lagt mikla áherslu á að bæta tannlæknaþjónustuna og auka hlutdeild almannatrygginga í þeim. Við höfum haft nokkurn árangur af því starfi þó að gera þurfi enn betur.

Forvarnastarfið er hins vegar ekki í nógu góðum farvegi. Sú var tíðin á Reykjavíkursvæðinu, þéttbýlissvæðinu, að öllum börnum í grunnskólum var sinnt. Fylgst var með þeim öllum og reyndar voru tannlækningar inni í skólunum. Þetta á við um höfuðborgarsvæðið, ekki um landsbyggðina. Síðan hafa skólarnir hver á fætur öðrum verið að loka tannlæknastofunum. Þá er sú hætta að ekki sé fylgst með börnunum.

Allar kannanir sem gerðar hafa verið sýna að rúmlega tíundi hluti barna er í hættu og þarf á góðu eftirliti að halda af hálfu skólans. Eftir að þessi þjónusta var færð úr skólunum hefur ekkert komið í staðinn. Það er núna verið að koma upp forvarnastöð og efla forvarnastarf, en það skortir enn fjárveitingar og við munum fylgjast mjög vel með því í tengslum við afgreiðslu fjárlaga að þarna verði veitt nægilegt fjármagn til að þetta verði í góðu lagi.

Við viljum láta hraða endurskoðun á samspili almannatrygginga, lífeyrisréttinda og skattkerfis, endurskoða alla viðmiðun tekjutenginga og sameina meðferð almannatrygginga, atvinnuleysisbóta og lífeyrismála í einu ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands.

[16:30]

Í tengslum við endurskoðun á þessu samspili lífeyrisgreiðslna, lífeyrisréttinda, almannatrygginga og skatta, kunna einhverjir langminnugir að hugsa til þess þegar ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. var að taka til starfa á árinu 1995. Þá var skipuð nefnd sem átti að hafa þetta verkefni með höndum. Hún kom saman til tveggja eða þriggja funda, sennilega voru þeir ekki fleiri. Síðan fengu nefndarmenn virðulegt bréf fyrir fáeinum mánuðum um að þeir hefðu verið leystir frá störfum. Þetta hefur því aldrei verið gert. Þetta var í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem mynduð var 1995 og það loforð var endurnýjað þegar næsta ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. var sett á laggirnar en ekki hefur verið staðið við þessi fyrirheit.

Við leggjum til að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar og stuðningur við endurmenntun og starfsendurhæfingu aukinn. Atvinnuleysisbætur eru mjög lágar, rúmlega 73 þús. kr., og ekki bætir úr skák að í fyrsta skipti er farið að skattleggja atvinnuleysisbætur. Atvinnuleysisbætur eru núna komnar yfir skattleysismörkin sem liggja í rúmum 70 þús. kr., þ.e. 70.279 kr. Það sem er umfram skattleysismörk er að sjálfsögðu skattlagt. Þarna teljum við að gera þurfi verulega bragarbót.

Við víkjum að barnabótum og réttindum foreldra og aðstandenda langveikra barna. Barnabæturnar hafa rýrnað stórlega á undanförnum árum. Þótt Framsfl. hafi reynt að hreykja sér af því að hann hafi náð árangri núna þá eru barnabætur minni að verðgildi en þær voru fyrir 10 árum. Jafnvel þessi margfrægu barnakort Framsfl., upp á fasta greiðslu með börnum, eru ekki svipur hjá sjón borið saman við það sem var um miðjan tíunda áratuginn. (Gripið fram í: Komu einhver kort?) Komu einhver kort? spyr þingmaðurinn. Það sem gerðist var að ákvörðun var tekin um að ótekjutengdar bætur yrðu látnar ganga til foreldra fyrir börn að sjö ára aldri, en um miðjan áratuginn voru þessar greiðslur reyndar ívið hærri og giltu til 15 eða 16 ára aldurs. Þetta þarf einnig að taka til skoðunar.

Verulegt átak þarf að gera til að auka framboð félagslegs leiguhúsnæðis. Við vitum hver staðan er þar. Hér á Reykjavíkursvæðinu eru 826 á biðlista, þar af 306 einstaklingar og fjölskyldur í bráðri neyð. Ástæðan er sú að stoðunum hefur verið kippt undan félagslega húsnæðiskerfinu. Það var gert með breytingum á húsnæðislöggjöfinni 1997. Síðan hefur ekkert komið í staðinn.

Menn hafa talað um að fjölga þurfi úrræðum á leigumarkaði en þeir aðilar sem sjá sínum skjólstæðingum fyrir leiguhúshæði, Öryrkjabandalagið, námsmannahreyfingar og Félagsbústaðir í Reykjavíkurborg, svo einhverjir séu nefndir, eru orðnir það aðþrengdir að þeir eiga um tvennt að velja, að falla frá áformum um frekari byggingar eða hækka húsaleigu. Ástæðan er sú að þessir aðilar fengu áður fjármagn frá ríkinu á 1% vöxtum. Frá ársbyrjun 2001 voru þessar vaxtagreiðslur hækkaðar í 3,5%. Þessi vaxtahækkun ein veldur því að hækka þyrfti húsaleiguna um 25% að mati Félagsíbúða í Reykjavík. Öll loforð um raunverulegar úrbætur af hálfu ríkisstjórnarinnar hafa verið svikin. Á sínum tíma var talað um tvær leiðir, annars vegar að lækka þessa vexti eða halda þeim lágum, eða að koma með sérstaka stofnstyrki.

Hæstv. félmrh. lýsti því yfir við utandagskrárumræðu fyrir fáeinum dögum að stofnstyrkirnir kæmu ekki, einfaldlega vegna þess að þeir væru dýrir. Til hvers áttu stofnstyrkirnir að koma? Þeir áttu að vega upp á móti vaxtahækkuninni. En ef þeir eru svo dýrir að samfélagið hefur ekki efni á því þá sjáum við hve mikið staða þeirra sem reisa félagslegt húsnæði hefur versnað. Nú segir ríkisstjórnin, sem talar væntanlega fyrir hönd samfélagsins, að það hafi ekki efni á að reiða fram þetta fé. Þetta er nokkuð sem þarf að taka til skoðunar.

Við tölum um aukinn stuðning við tekjulága einstaklinga og fjölskyldur vegna húsnæðiskostnaðar og að sá stuðningur verði samræmdur. Við víkjum að áætlun um að auðvelda sveigjanleg starfslok. Reyndar hefur það ekki farið fram hjá neinum að nefnd sem hafði þetta verkefni með höndum var að skila áliti. Þar eru tillögur sem gera ráð fyrir sveigjanlegum starfslokum til 72 ára aldurs.

Við leggjum til aðgerðir til að útrýma kynbundnum launamun sem verði sérstakt forgangsverkefni næstu árin. Því hefur verið haldið fram að þær breytingar sem gerðar hafa verið á launakerfunum hjá hinu opinbera stuðli fremur að auknum launamun en dragi ekki úr honum. Þetta þarf að taka til athugunar. Við víkjum að styttingu vinnuvikunnar.

Við fjöllum um setningu laga sem varna því að fólki sé mismunað á vinnumarkaði vegna aldurs. Við höfum reyndar flutt sérstakt þingmál um þetta sem verður endurflutt núna í vetur. Við leggjum jafnframt til heildarlöggjöf um málefni innflytjenda.

Ég mun koma nánar að öðrum þáttum í seinni ræðu minni.