Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 11:03:19 (807)

2002-10-31 11:03:19# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[11:03]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Frv. sem við ræðum hér er í sjálfu sér ekki mjög stórt í sniðum. Efni þess gengur í raun út á að nýta aflaheimildir á þessu fiskveiðiári, annars vegar til þorskeldis og hins vegar í sérstakan pott upp á 500 lestir til að auka aflaheimildir þessa árs, sem hefði átt að nýta á síðasta fiskveiðiári. Það er kannski ekki mikið við það að athuga þó að menn reyni að færa þessar heimildir á milli ára og reyni að nýta þær.

Hins vegar er fjöldamargt við það að athuga sem gerst hefur í veiðum og vinnslu hér á landi á síðasta fiskveiðiári. Hér er mælt fyrir aðgerðum til stuðnings byggðarlögum sem lenda í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi en hins vegar verður að segjast að sá vandi er algerlega heimasmíðaður í sjútvrn. Það er ekki hægt að finna aðrar ástæður fyrir honum. Á sama tíma og við erum að ræða um vandann í sjávarútveginum víða um land hafa aflaheimildir verið að aukast talsvert. Aflaheimildir í ýsunni, sem hæstv. sjútvrh. taldi svo afar nauðsynlegt að kvótasetja inn á krókabátana, hafa aukist um 82% frá því að tekið var til við að keyra þessi mál í gegn, þ.e. úr 30 þús. tonnum í heildarafla upp í 55 þús. tonn á þessu fiskveiðiári. Sjútvrh. jók á fiskveiðiárinu 2001/2002 við kvótann um 11 þús. tonn um leið og þessi kvótasetning á krókabátana átti sér stað, þ.e. úr 30 þús. tonnum í 41 þús. tonn. Hafrannsóknastofnun kom svo og bætti um betur og lagði til 55 þús. tonn.

Örfáum missirum áður höfðu þeir sjómenn sem stunduðu veiðar hér við land haldið því fram að mikil vöxtur væri í stofninum og alger óþarfi að fara þessa kvótasetningarleið. Rök þeirra voru talin léttvæg og lítt mark á þeim takandi. Staðreyndin var hins vegar sú að fiskimennirnir höfðu rétt fyrir sér og Hafrannsóknastofnun lagði til 82% aukningu á heildarafla ársins. Þetta segir okkur auðvitað að því miður að hefur Hafrannsóknastofnunin ekki getað séð fyrir breytingar í aflabrögðum, hvorki þegar um er að ræða uppsveiflu né niðursveiflu. Til að nefna dæmi um niðursveifluna má minna á tillögur Hafrannsóknastofnunar þegar hún skar niður þorskinn tvö fiskveiðiár í röð og týndi 600 þús. tonnum út úr stofninum miðað við þá framsetningu sem áður hafði verið.

Önnur fisktegund hefur blandast verulega inn í afkomu þess kjördæmis sem ég kem frá, Vestfjarða. Það er steinbíturinn. Það þótti nauðsynlegt að kvótasetja hann þrátt fyrir að heildarafli á steinbít væri aukinn úr 13 þús. tonnum upp í 16 þús. tonn. Þetta gekk eftir þrátt fyrir að við höfum upplifað það síðustu tvö fiskveiðiár að stórútgerðin, þ.e. aflamarksútgerðin, hafi ekki fullnýtt heimildir í steinbít til veiða heldur notað til tegundabreytinga. Á síðasta fiskveiðiári notaði aflamarksflotinn 726 tonn af steinbít í tegundabreytingar. Til að framleiða hvað? Jú, m.a. grálúðu og karfa. Á fiskveiðiárinu þar á undan, 2000/2001, voru sett í tegundartilfærslu 1.900 tonn af steinbít. Á sama tíma og stórútgerðin krafðist kvótasetningar yfir smábátana í þessari sérstöku fisktegund, steinbítnum, sem hefur vissulega komið verst við Vestfirðinga, nýtti útgerðin ekki heimildir sínar heldur eingöngu þær reglur sem í lögunum eru til að framleiða eina fisktegund úr annarri, breyta grunnslóðartegundinni steinbít í grálúðu. Þannig er sú saga.

Rökin fyrir þessari kvótasetningu, bæði í ýsunni og steinbítnum, voru því ónýt. Þess vegna segi ég, þegar talað er um vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi í frv., að sá vandi er af manna völdum. Það er hæstv. sjútvrh. sem hefur búið hann til með einbeittum vilja sínum til að skera niður atvinnu á landsbyggðinni og einbeittum vilja til að minnka áhrif uppbyggingarinnar á svæði eins og Vestfjörðum sem hafði áður lent í að missa mikinn hluta aflaheimilda sinna í hinu stóra aflamarkskerfi. Í skýrslu sem Byggðastofnun birti í október árið 2001, er þetta dregið fram. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Fyrir áratug var unnið úr rúmlega 60.000 tonnum í vestfirskum sjávarbyggðum en á síðasta ári var þessi tala komin niður í tæp 32.000 tonn.``

Ofan í þennan samdrátt taldi ráðherrann eitt af sínum brýnustu verkum að kvótasetja steinbít og ýsu. Þess vegna er ekki hægt að segja annað en að verkin hafi valdið vanda í sjávarútvegi. Sá vandi er búinn til í sjútvrn. Ég hef reyndar ekki getað áttað mig á því hvað ráðherranum gengur til með því að fara þessa leið og hvað undirsátum hans í sjútvn. hefur gengið til með að fara þessa leið. Hvað gekk formanni sjútvn., 1. þm. Vestf., til með að láta teyma sig inn á þessa ógæfubraut? (JB: Það var langt í prófkjör.) Já, sennilega var of langt í prófkjör. Hann hefur haldið að menn yrðu búnir að gleyma þegar kæmi að prófkjöri og þyrfti á ný að fara að velja þá forustu sem hugsa ætti um hagsmuni Vestfirðinga. Það er sennilega ástæðan. Menn hafa treyst á að menn yrðu búnir að gleyma.

Reyndar er ég ekki viss um að það hafi verið meginástæðan, herra forseti. Ég hygg að meginástæðan hafi verið sú að þingmennirnir, eins og það var orðað hér áðan, þ.e. góðu þingmennirnir sem komu með kvótann, mundu njóta þess þegar ráðherrann fæli þeim að útdeila bitunum. Ætli það hafi ekki verið hugsunin á bak við að ákveða að fara þessa leið? Þessu var komið til leiðar með því að búa til alla þá potta í löggjöfinni sem raun ber vitni.

Það er kannski rétt að rifja aðeins upp hvernig smíði þeirra potta fór fram. Eins og þingmenn muna kannski var settur í 4. gr. laganna, sem breytt var á Alþingi í desember 2001, pottur upp á þúsund lestir af ýsu, þúsund lestir af steinbít og 300 af ufsa sem skyldi úthluta til krókaaflamarksbáta sem gerðir væru út frá sjávarbyggðum sem að verulegu leyti væru háðar veiðum krókaaflamarksbáta. Þetta var einn potturinn, herra forseti.

Í 7. gr. kom næsti pottur. Hann var þannig að á fiskveiðiárinu 2001/2002 skyldi úthluta bátum með krókaaflamarksleyfi, sem slík leyfi fengu 1. september 2001, 1.800 lestum af ýsu, 1.500 lestum af steinbít og 300 lestum af ufsa, sem skyldi skipt milli þeirra á grundvelli veiðireynslu.

Þriðji potturinn var upp á 200 lestir af ýsu og 600 lestir af steinbít, að á fiskveiðiárinu 2001/2002 skyldi enn fremur úthluta bátum með krókaaflamarksleyfi, sem slík leyfi fengu 1. september 2001 úr þessum pottum. Þarna erum við með þrjá potta.

Fjórði potturinn er sá sem við erum að tala um núna, 500 tonn sem átti að úthluta í fyrra og færa skal yfir á þetta ár. Ég hlýt að spyrja ráðherrann og óska eftir því að hann gefi okkur skýringu á því hvernig þær reglur voru samdar sem notaðar voru til úthlutunar þegar upp var staðið. Hvernig má það vera að staður eins og Þingeyri, þar sem nokkrir krókaaflamarksmenn eru, fái enga úthlutun en staður eins og Flateyri fái ágætisúthlutun, svo dæmi sé tekið? Ég er ekki að gera lítið úr þörf Flateyringa sem þurftu á auknum aflaheimildum að halda.

Staðreyndin er sú að það sem hefur gerst á síðasta fiskveiðiári eftir kvótasetninguna er nánast nákvæmlega hið sama og sett var fram í skýrslunni Áhrif kvótasetningar aukategunda hjá krókabátum á byggð á Vestfjörðum. Þessi skýrsla, sem unnin var af Byggðastofnun, var rifin niður og sagt að hún spáði svartnætti sem ætti ekki við nein rök að styðjast. En hverjar eru staðreyndir málsins, herra forseti? Á fiskveiðiárinu 2000/2001 veiddu krókabátarnir 10.300 lestir af ýsu. Á síðasta fiskveiðiári, eftir kvótasetninguna, veiða þeir nánast það sem hér var sagt að þeir mundu veiða. Þeir veiða 5.800 tonn af ýsu. Samdrátturinn er 4.500 tonn á milli fiskveiðiára. Af steinbítnum veiddu menn, meðan þeir höfðu frjálsræði í krókakerfinu, 9.800 tonn. Á síðasta fiskveiðiári, eftir kvótasetningu ráðherrans, bræðra hans og systra í stjórnarflokkunum, veiddu þeir 5.600 tonn. Samdráttur upp á 4.200 tonn, herra forseti.

Þetta er náttúrlega heimatilbúinn vandi, hæstv. ráðherra. Það er skondið að þurfa að setja það inn í lög að við vanda sé að stríða í sjávarútvegi þegar menn framleiða vandamálin sjálfir.

[11:15]

Herra forseti. Það sem sett var fram í skýrslu Byggðastofnunar haustið 2001 varðandi áhrif kvótasetningar á aukategundir krókabáta á byggð á Vestfjörðum er nánast allt komið fram. Ég held að þeir ættu að draga til baka yfirlýsingar sínar sem sögðu að þessi skýrsla hefði verið illa unnin og illa að henni staðið.

Herra forseti. Ég vil fara þess á leit við hæstv. ráðherra að hann geri okkur grein fyrir þeim reglum sem unnið hefur verið eftir í þeim pottum sem þegar hefur verið úthlutað úr. Hvernig hyggur ráðherrann að þær blandist inn í þá úthlutun sem nú stendur fyrir dyrum, þegar búið er að bæta þessum 500 tonnum við og 2.000 tonn í pottinum? Hvernig munu þær hafa áhrif á þá úthlutun? Hvernig verður litið til þess í mati á hverjir eigi að fá úthlutun úr þessum pottum upp á 2.000 tonn?

Ég verð að segja, herra forseti, að þótt hagur margra vænkist við að fá úthlutað úr þessum pottum þá er þetta alröng aðferð. Það verður að segjast að það var ógæfuverk að færa þessa kvótasetningarleið á krókabátana. Hún var með öllu óþörf, eins og ég tel mig hafa sýnt fram á, og er algjörlega heimasmíðaður vandi hæstv. sjútvrh. sem á að hugsa um hagsmuni sjávarútvegsins og hagsmuni byggðanna líka. Það er beinlínis verið að búa til mikinn vanda í ákveðnum byggðarlögum með þessari leið. Það er ekki stuðlað að verðmætaaukningu í sjávrútvegi með því að keyra niður veiðar daga- og krókabátanna. Að öllu samanlögðu hlýtur að valda nokkrum áhyggjum hvernig fara skuli í öll þessi mál.

Í niðurlagi athugasemda með frv. segir, með leyfi forseta:

,,Þar sem það hefur tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir að setja reglur um þessa sérstöku úthlutun kom hún ekki til framkvæmda á fiskveiðiárinu 2001/2002.``

Mig langar til að spyrja hæstv. sjútvrh. hvað í úthlutun pottanna sem áður hafði verið úthlutað úr hafi valdið því að menn komu ekki þessum potti út á síðasta fiskveiðiári. Ég bið hann að gefa þingmönnum skýringu á því. Ég hef áður borið fram spurningu um hvernig reglurnar um úthlutun hinna sérstöku potta muni blandast inn í þann 2.000 tonna pott sem núna verður úthlutað úr samkvæmt þessu frv.

Herra forseti. Landssamband smábátaeigenda spáði því að við kvótasetningu á ýsu, ufsa og steinbít gætu umsvif krókabátaútgerðar á Vestfjörðum minnkað svo að heilsársstörfum við smábátaútgerð á svæðinu fækkaði um 160--200. Um er að ræða störf við beitningu og sjómennsku. Í einhverjum tilfellum munu smábátasjómenn sjálfir taka til við beitningu og í einhverjum tilfellum skipta úr línuveiði yfir á handfæri. Þetta hygg ég að hafi allt saman gerst, því miður.

Þó að ég hafi ekki tölur um hversu mikill samdrátturinn er þá veit að þessi breyting hefur átt sér stað. Menn hafa dregið úr veiðum og sumir hætt og ákveðið að selja. Afleiðingarnar verða nákvæmlega þær sömu í smábátakerfinu og í stóra kerfinu. Þegar búið er að úthluta kvótum er það útgerðarmaðurinn sem hefur kvótann á sinni hendi. Réttur fólksins er horfinn. Hagsmunir útgerðarinnar og hagsmunir fólksins í byggðunum fara saman þegar sjósóknin skiptir mestu, þegar menn þurfa að sækja sjó til að afla tekna og eiga alla afkomu sína undir sjósókn og öflugu einstaklingsframtaki.

Þegar menn eru hins vegar komnir í haft kvótans þá breytast viðhorfin. Menn standa frammi fyrir vanda í sjávarútvegi sem stjórnvöld hafa búið til og sitja uppi með það. Þá eiga menn oftast bara tvo kosti, að draga saman miðað við aflaheimildir eða að selja frá sér aflaheimildirnar og hætta útgerð. Um leið og það gerist þá minnka auðvitað atvinnuréttindi fólksins. Þess vegna er útfærsla okkar á kvótakerfinu, með framseljanlega kvóta og leigu, fjandsamleg byggðunum. Hún er fjandsamleg fólkinu, enda fara hagsmunir útgerðarmanna og byggðanna ekki saman þegar kemur að því að selja þennan rétt.

Undir kvótanum er staðan allt önnur en var áður þegar útgerðarmenn þurftu að gera út báta sína til að fá tekjur. Í þeim umsvifum fólst atvinna fólksins auk þess sem sjávarútvegur kallar á mörg störf í þjónustu og margfeldisáhrif sjávarútvegsstarfanna eru mikil. Í áðurnefndri skýrslu Byggðastofnunar var gert ráð fyrir því að á bak við hvert starf í sjósókn á Vestfjörðum væru 4,4 manneskjur sem hefðu af því afkomu. Hann var ekki lítill sá mannlegi vandi sem sjútvrh. olli með þessum aðgerðum. Ég verð sífellt meira undrandi, eftir því sem rökin gegn þessari ákvörðun hlaðast upp, á því hvernig í ósköpunum það gat gerst að vestfirskir stjórnarliðar tóku undir það að gangast undir þessa meinlegu tillögu ráðherrans.