Áhrif af skattstefnu ríkisstjórnarinnar

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 15:33:57 (997)

2002-11-04 15:33:57# 128. lþ. 21.94 fundur 215#B áhrif af skattstefnu ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[15:33]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Skattstefna ríkisstjórnarinnar er röng og vanhugsuð. Hún byggist fyrst og fremst á því að færa skattbyrði af efnameira fólki og stórfyrirtækjum yfir á lífeyrisþega, fólk með lágar og meðaltekjur og lítil og meðalstór fyrirtæki. Þessi fyrirtæki og fólkið sem minnst hefur milli handanna hefur því greitt fyrir gífurlegar skattaívilnanir og skattalækkanir til efnamanna og stórfyrirtækja. Það gerir ríkisstjórnin með því að frysta skattleysismörkin, lækka barnabætur og hækka tryggingagjöldin sem kemur sér mjög illa fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.

Í hnotskurn snýst skattstefna ríkisstjórnarinnar um skattpíningu á launafólki með meðaltekjur og þá sem minnst hafa og síðan andstæðuna, skattaparadís efnamanna og stórfyrirtækja. Fram hefur komið að staðgreiðsluskattar hafa hækkað í tíð ríkisstjórnarinnar um 107% að meðaltali á hvern skattgreiðanda en launin um 63%. Skattahækkunin er því langt umfram það sem launabreytingar hafa gefið tilefni til. Hvernig ætlar hæstv. fjmrh. að réttlæta það að skattbyrði verkafólks hefur í tíð ríkisstjórnarinnar aukist fjórfalt meira en þeirra efnameiri? Samkvæmt fréttum á Stöð 2 hefur skattbyrði verkafólks aukist um 109 þús. kr. á ári en skattbyrði fólks með tekjur yfir 350 þúsund kr. hefur til samanburðar aukist um 29 þús. kr. Það er sama hvaða mælikvarði er notaður. Skattbyrðin hefur aukist gífurlega. Heildarskattar, þar á meðal tekjuskattur og neysluskattar, hafa aukist úr 31,5% af landsframleiðslu árið 1995 í 37,3% árið 2000. Neysluskattar eru langt frá því að vera helsta skýringin á þessari auknu skattbyrði eins og fjmrh. hélt fram í sjónvarpi í gærkvöldi.

Af 103 milljarða viðbótarskatttekjum hins opinbera milli þessara ára má rekja 65 milljarða til meiri landsframleiðslu og verðlagsbreytinga en 38 milljarða vegna hækkunar á skattbyrði, þar af 28 milljarða vegna hækkunar á sköttum á tekjur og hagnað. Það er deginum ljósara að lækkun á tekjuskattshlutfalli einstaklinga og 42% í um 38% hefur fyrst og fremst skilað sér til þeirra efnameiri vegna þess hve persónuafslátturinn er skertur en hann er nú 26 þús. í stað 40 þús. ef hann hefði haldið í við vísitöluþróun. Þeir sem hafa nú um 400 þús. kr. í laun á mánuði eða meira hafa sloppið betur en þeir sem eru með undir 400 þús. kr. á mánuði. Þeir borga nú hærri skatta þrátt fyrir lækkun á tekjuskattshlutfallinu. Þessi aukning á skattbyrði hefur ekki síst bitnað harkalega á lágtekjufólki, lífeyrisþegum og atvinnulausum sem eru með tekjur undir lágmarkslaunum sem greiddu um 1 milljarð í skatt á sl. ári en greiddu ekkert í skatt á árinu 1995. Það er ekki eins og þetta fólk greiði ekki skatta til samfélagsins þó það greiði ekki tekjuskatt því að það greiðir háar fjárhæðir af litlum tekjum sínum í virðisaukaskatt af nauðþurftum en samkvæmt því sem fram hefur komið opinberlega nýverið er almennur neysluskattur hér á landi sá næsthæsti sem þekkist í löndum OECD. Og maður spyr: Hvert er þjóðfélagið komið þegar lífeyrisþegar og lágtekjufólk þarf að greiða 38% af litlum framfærslueyri sínum og lífeyri úr lífeyrissjóði í skatt meðan þeir auðugustu í landinu greiða aðeins um 10% af fjármagnstekjum sínum? 100 einstaklingar og fjölskyldur höfðu á sl. ári að meðaltali um 300 þús. kr. á hverjum degi allt árið um kring eingöngu í fjármagnstekjur eða 116 millj. hver þeirra.

Skattstefnan sem íhaldið er í forsvari fyrir og Framsfl. virðist kokgleypa er stefna sérhagsmuna í skattamálum gegn almannahagsmunum. Samfylkingin hefur ítrekað varað við áhrifum af þessari stefnu og lagt fram valkosti í skattamálum sem byggjast á sanngirni og réttlæti. Við í Samfylkingunni höfum teflt fram leið sanngirni og réttlætis gegn þeirri sérhagsmunastefnu ríkisstjórnarinnar sem hyglar þeim sem síst þurfa á því að halda í þjóðfélaginu á kostnað launamanna og lífeyrisþega. Það er rétt sem forustumenn ASÍ segja að ríkisstjórnin er á góðri leið með að búa til stéttskipt þjóðfélag og hún er að skipta þjóðinni upp í tvær þjóðir þar sem gæðunum er óréttlátlega skipt og misskipting fer vaxandi.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hver eru viðbrögð ráðherrans við þeim upplýsingum sem fram hafa komið að undanförnu um áhrifin af skattstefnu ríkisstjórnarinnar, t.d. um skattbyrði verkafólks og lífeyrisþega sem hefur þyngst mun meira en þeirra efnameiri?

Er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir breytingum sem lækka skatta á lífeyrisþegum og fólki með lágar og meðaltekjur og jafna eðlilega skattbyrðina í landinu?

Er þess að vænta að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að tekið verði upp fjölþrepa skattkerfi fyrir lok kjörtímabilsins?

Telur ráðherra eðlilegt að lífeyrisþegar greiði 38% af lífeyrisgreiðslum úr lífeyrissjóðum og er hann reiðubúinn til að lækka þá skatta í 10% til samræmis við fjármagnstekjur?