Áhrif af skattstefnu ríkisstjórnarinnar

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 15:46:57 (1000)

2002-11-04 15:46:57# 128. lþ. 21.94 fundur 215#B áhrif af skattstefnu ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[15:46]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum hefur leitt það af sér að kaupmáttur launa hefur vaxið um tæplega þriðjung á átta árum. Auðvitað borga launþegar hærri skatta þegar þeir auka tekjur sínar, og vegna þess að ekki er eftir neinn persónuafsláttur upp í kauphækkunina verður aukningin auðvitað þannig að hlutfallsleg skattbyrði þyngist. Það þýðir þó ekki að kjör launþegans hafi versnað við þessa breytingu. Það þýðir að kjör hans hafa batnað. Kaupmáttaraukningin skilar eftir skatta betri lífskjörum en var áður en kaupmáttaraukningin átti sér stað.

Það er alveg ljóst, herra forseti, að kjör fólks batna ekki ef efnahagslífið getur ekki greitt hærra kaup. Hvernig batna kjör láglaunafólks ef ekki er hægt að standa undir kauphækkunum? Vegna þess að atvinnulífið hefur getað hækkað kaupið hafa kjör fólks batnað um hartnær þriðjung á tæplega átta árum.

Í öðru lagi liggur það fyrir að ríkisstjórnin hefur lækkað tekjuskatt um 7 prósentustig á þessu tímabili. Prósentulækkun á sköttum þýðir að dreifingin á lækkuninni fer eftir tekjum, og menn kunna að spyrja: Hafa kjör lægra launaðs fólks batnað minna en kjör hærra launaðs fólks? Það er ekki víst að svarið við því sé einhlítt. Þá verða menn að taka tillit til annarra breytinga sem gerðar hafa verið af núverandi ríkisstjórn. Í fyrsta lagi hækkun á millifæranlegum persónuafslætti úr 80% í 100%, í öðru lagi hækkun barnabóta um 2 milljarða, í þriðja lagi afnám skattlagningar húsaleigubóta, í fjórða lagi afnám skattlagningar á iðgjöld til lífeyrissjóða og í fimmta lagi lækkunin á virðisaukaskatti á matvöru úr 24,5% í 14%.