Áhrif af skattstefnu ríkisstjórnarinnar

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 16:07:57 (1009)

2002-11-04 16:07:57# 128. lþ. 21.94 fundur 215#B áhrif af skattstefnu ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[16:07]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ýmislegt hefur komið fram í þessum umræðum, m.a. það að hv. þm. Gísli S. Einarsson veit ekki að búið er að lækka eignarskatta með lögum um rúmlega helming.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að það sem skipti máli væri það sem er eftir í vösunum hjá fólki. Það er vitanlega það sem skiptir máli. Það köllum við kaupmátt, kaupmátt ráðstöfunartekna, það sem við höfum verið að segja hér frá að hefur hækkað um meira en 30% á átta árum. Finnst mönnum þetta ekki skipta nokkru máli? (Gripið fram í.)

Málið er það að við erum með þannig skattkerfi og það var tekið hér upp 1987. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tók fullan þátt í því ásamt fyrirspyrjanda og þáv. fjmrh. að verða fyrstu ráðherrarnir til þess að falla frá lögbindingu þess að persónuafsláttur skyldi hækka samkvæmt verðlagi. Síðan hefur það ekki verið gert. Og hver skyldi nú vera ástæðan fyrir því að þeir herrar gerðu það á þeim tíma?

Nei, málið er auðvitað það að við erum með kerfi þar sem tekjuskattur hækkar og er hlutfallslega meiri eftir því sem tekjur eru hærri. Þetta er fjölþrepakerfi eins og hér hefur komið fram. Það hlýtur að vera eftirsóknarverðara, hv. þm., að hafa 100 þús. kr. í tekjur og borga 11% í skatt af því en að hafa 70 þús. kr. í tekjur og borga engan skatt. En þingmaðurinn er í raun og veru að segja okkur það gagnstæða. Það er betra að hafa lágar tekjur bara ef maður borgar engan skatt. Hvers lags fjarstæða er þetta? (Gripið fram í.) Er ekki miklu betra að fólkið ýtist upp í tekjum og kaupmátturinn batni hjá því þó það borgi einhvern skatt af þeim tekjum? Auðvitað er það betra. Er ekki betra að hafa 200 þús. kr. og borga 24% í skatt en að hafa 100 þús. kr. og borga 11%? Vilja menn bara að skattbyrðin verði nógu lág en tekjurnar skipti engu máli? (Gripið fram í.)

Þessi málflutningur stenst ekki. Slíkur málflutningur gengur ekki upp og það vita allir sem hafa þurft að taka þátt í því að stjórna landinu eins og þeir ræðumenn hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem hafa haft sig (Gripið fram í.) mikið í frammi.