Vændi

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 15:26:27 (1059)

2002-11-05 15:26:27# 128. lþ. 22.95 fundur 220#B vændi# (umræður utan dagskrár), Flm. GÖ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[15:26]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. dómsmrh. og hv. þingmönnum fyrir mjög góða umræðu sem hér hefur farið fram. Auðvitað var ekki við öðru að búast.

Við höfum tekið þessi mál alvarlega hér á hinu háa Alþingi. Þau voru ekki tekin alvarlega hér áður fyrr, hvorki þegar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson né aðrir þingmenn, m.a. Kvennalistans, voru með þessi mál hér. Þegar ég hóf þessa umræðu hér hafði ég hins vegar kannski þekkingu á þessu vegna þess að ég hef verið með mjög margar af þessum konum og drengjum í viðtölum. Þetta er því heimur sem ég þekki afar vel til.

Mjög margt hefur gerst og því verðum við líka að halda til haga. Ég þakka auðvitað hæstv. dómsmrh. fyrir svörin og ég er sérstaklega ánægð með að það skuli vera búið að setja áframhaldandi könnun á drengjavændinu í farveg. Ég fagna því alveg sérstaklega.

Ég hef tekið þátt í mörgum alþjóðlegum ráðstefnum og fundum í öðrum löndum um þessi mál og um mansalið. Ég fagna þeim frv. sem væntanlega liggja fyrir um verslun með konur og börn þannig að við tökum þátt í vitnavernd og verðum samstiga alþjóðasamfélaginu í því að standa vörð um þennan hóp.

Auðvitað er mjög margt í pípunum. Margir minntust hér á sænsku leiðina, þ.e. að kaup á vændi sé refsivert. Auðvitað eigum við að skoða það. Sú umræða er á fljúgandi fart á öllum Norðurlöndum og í Evrópu. Ég veit að það mun sennilega skila sér hér í tillögu og samþykkt.

Ég minni líka á að öll þessi umræða hefur þó skilað sér í því að nú er bara einn nektardansstaður eftir með kjöltudans þannig að ýmislegt hefur nú náðst fram með allri umræðunni um verslun með líkama kvenna, því hún er ekki til sóma á þeirri öld sem við lifum.