Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 16:39:16 (1080)

2002-11-05 16:39:16# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[16:39]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er enn óánægðari með framsetningu hæstv. ráðherra núna. Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að málin eru ekki unnin þannig að allir liðir séu einfaldlega hækkaðir o.s.frv. Ég geri mér vel grein fyrir því. Hins vegar eru til mál varðandi uppbyggingu og þjónustu við Norðlendinga sjálfa sem ég hef ekki tíma til að fjalla um í andsvari en nefni sem dæmi bæklunarþjónustu og eflingu hennar. Fólk sem þarfnast hennar er sent suður. Það eru mörg slík mál sem hægt er að setja í gang.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í eitt mál. Hvernig gengur t.d. uppbygging og framþróun varðandi Landskrá fasteigna sem var einróma samþykkt í þinginu? Er verið að vinna að því af fullum krafti eða er verið að auka þjónustuna og gera það batterí með Fasteignamati ríkisins skilvirkara? Það eru slík mál sem ég er að tala um sem eru algjörlega borðleggjandi og til áætlanir um.