Verðmyndun á innfluttu sementi

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 17:34:26 (1087)

2002-11-05 17:34:26# 128. lþ. 22.9 fundur 32. mál: #A verðmyndun á innfluttu sementi# þál., 133. mál: #A framtíðarhlutverk Sementsverksmiðjunnar hf.# þál., Flm. JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[17:34]

Flm. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra kom inn á að allt að helmingsverðmunur gæti verið á sementi frá hinum danska innflutningsaðila, á verðinu hér á landi miðað við það sem er í heimalandinu. Jafnframt minntist hæstv. ráðherra á að sementsmarkaðurinn hér væri í raun orðinn opinn markaður enda hafa úrskurðir sem fallið hafa hjá Samkeppnisstofnun verið á þann veg. Úrskurður sem féll í vor laut að því að hér væri einangraður íslenskur markaður og þess vegna væri Sementsverksmiðjan ráðandi. En samkvæmt úrskurði sem féll sl. fimmtudag ræður hér á landi alheimsmarkaður og Sementsverksmiðjan því ekki allsráðandi, hér telst því opinn markaður.

Af þessu má ljóst vera að hér er eitthvað gruggugt á ferð, mjög gruggugt. Það hefur líka komið fram hjá forráðamönnum verksmiðjunnar að þeir þoli ekki langa bið. Þeir þola ekki að hér verði um lengri tíma boðið fram sement á óeðlilega lágu verði.

Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðherra:

1. Er vitað hvenær úrskurðar er að vænta frá ESA-dómstólnum um fyrra atriðið?

2. Kemur til greina að íslensk stjórnvöld setji innflutningsgjöld á hið innflutta sement þannig að það kosti a.m.k. ekki minna hér en í heimalandinu, þar sem það er framleitt, að viðbættum flutningskostnaði, meðan verið er að útkljá þessi mál fyrir dómstólum?

Það er algjörlega óviðunandi að búa við það til lengri tíma að inn á þennan markað komi sement á opinn markað á miklu lægra verði en er í framleiðslulandinu. Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að sett verði innflutningsgjöld á þetta sement meðan málið verður útkljáð?