Verðmætaaukning sjávarfangs

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 13:46:22 (1207)

2002-11-07 13:46:22# 128. lþ. 25.94 fundur 232#B verðmætaaukning sjávarfangs# (umræður utan dagskrár), PBj
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[13:46]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Ég mun einbeita mér að samanburði á sjófrystingu og útflutningi á ferskum flökum og sækja heimildir um þann samanburð í fyrrnefnda skýrslu sem ég er svo heppinn að hafa haft undir höndum. Þar er mikill fróðleikur saman dreginn, en margs er þó einnig saknað sem þar ætti að vera en er hvergi að finna. Þar er sýnt fram á að hægt er að stórauka verðmæti afla með því að draga úr frystingu í vinnslu úti á sjó og það á raunar við um frystingu í landvinnslunni líka, en auka þess í stað útflutning á ferskum flökum.

Við í Frjálslynda flokknum höfum löngum bent á gildi dagróðrarbátanna og þess ferska hráefnis sem sá floti ber að landi. Ef borið er svo saman sjófrysting á þorski og útflutningur á ferskum flökum kemur í ljós að 68% hærra verð má fá fyrir fiskinn með því að flaka hann og flytja út ferskan heldur en með því að vinna hann um borð í fullvinnsluskipum. Þá er ótalinn sparnaður af rekstri frystingar og verksmiðja á hafi úti, þar sem innflutt olía er notuð sem orkugjafi og einnig má benda á að aukaafurðir fara að mestu forgörðum í sjóvinnslunni, en þær væri hægt að nýta í landi.

Svipaður munur er á frystingu og ferskum flökum í ýsunni og þegar kemur að karfa þá má þrefalda verðmæti hans ef unnt reynist að flaka hann og flytja út ferskan. Þar munar 300%. Hann veiðist fyrst og fremst í botnvörpu og veiðist dýpra og því óhægara um vik. Hann hefur þó mikið geymsluþol. Allt ber þetta að sama brunni. Strandveiðiflotinn er þjóðhagslega hagkvæmur. Hann skilar mjög góðu hráefni að landi af grunnmiðum, styður búsetu í landinu og nýtir fjárfestingar sem fyrir eru. Þær geta stóraukið verðmæti aflans eins og sýnt er fram á.

Hæstv. ráðherra nefndi að áhugi ungs fólks væri lítill á sjávarútvegi og störfum þar. Það er kannski ekkert skrýtið. Þeir sem heimildirnar eiga hafa ekki mikinn áhuga á því að starfa á sjó. Þeir hafa meiri áhuga á peningum og öðrum slíkum pappírum, en þeir og væntanlega afkomendur þeirra ungir hafa afskaplega lítinn áhuga á því að starfa sjálfir við greinina.