Rannsóknir á þorskeldi

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 15:21:49 (1237)

2002-11-07 15:21:49# 128. lþ. 25.5 fundur 35. mál: #A rannsóknir á þorskeldi# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[15:21]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um till. til þál. um rannsóknir á þorskeldi og þar eru flm. hv. þm. Karl V. Matthíasson og fleiri.

Ég vil um þessa tillögu segja verandi í sjútvn. að ég tel að tillagan sé allrar athygli verð. Auðvitað eigum við að stunda rannsóknir á öllum þeim framtíðarmöguleikum sem fyrir hendi eru og þar á meðal þorskeldi, það er sjálfsagt mál, spurningin er í hvaða farveg á að setja hlutina. Þá kemur eins og svo oft áður að peningum og hvernig þeir eru settir inn í greinina.

Mig langar að minnast á það í samhengi við umfjöllun um þáltill. að við verðum líka að skoða allt eldi, áframeldi á fiskum, í því ljósi að við erum líka með önnur áform t.d. að meira af íslenskum fiski fari til manneldis en sé ekki brætt í mjöl til áframeldis á dýrum og þar með fiskum. Í skýrslunni kemur fram í sambandi við að auka verðmæti sjávarfangs sem við fjölluðum hér um fyrr í dag, að 1/3 aflans af Íslandsmiðum fer í mjölframleiðslu og það er íhugunarefni í þessu sambandi þegar við tölum um eldismálin. Um 90--99% loðnuaflans eru brædd og fer það í mjöl og síðan í fóður fyrir dýr. T.d. kom fram að árið 2001 fór 81% kolmunnaaflans í mjölvinnslu, en liðlega 300 þúsund tonn voru veidd af kolmunna. Kolmunni er fisktegund sem má mjög auðveldlega nýta til manneldis. Í ljósi lífmassans í hafinu verðum við líka að marka okkur stefnu um það hvernig við ætlum að veiða og fyrst og fremst vernda til veiða hina villtu nytjastofna, þannig að afrakstur þeirra verði eins mikill og kostur er.

Í skýrslunni um að auka verðmæti sjávarfangs kom fram hjá skýrsluhöfundum, ég tek fram að skýrslan er hið ágætasta gagn og er til stuðnings fyrir okkur stjórnmálamenn til að taka afstöðu, að fiskeldið gaf okkur árið 2001 um 1 milljarð í tekjur. En ef við skoðum markmiðin sem eru sett fram um eldi fiska, þá er talið að það megi á næstu 10--12 árum margfalda þá upphæð og er í skýrslunni talað um jafnvel þrjá tugi milljarða í því samhengi.

Þó svo að ég sé mjög hlynntur því að farið verði í auknar rannsóknir og menn viti hvar þeir standa, þá vil ég benda á að rannsóknir og frumvinnsla varðandi þorskinn á nú að vera okkur mjög miklu auðveldara en hefur verið í öðrum tegundum. Við höfum náð gríðarlega langt hvað varðar klak á lúðu og lúðuseiði eru núna framleidd við Eyjafjörð og það er um 80% af heimsframleiðslunni. Kannski eru það aðrir þættir en vísindavinnan þarna sem standa okkur fyrir þrifum varðandi framþróun fiskeldisins, vegna þess að í fiskeldi Eyjafjarðar með lúðuna eru að klekjast u.þ.b. 400 þús. seiði og í landinu fara í áframeldi aðeins 65 þús. seiði af þessum 400 þús. seiðum. Áætlað er að fyrirtækið muni klekja í lúðunni u.þ.b. 1 milljón seiða innan þriggja ára.

Ég segi þetta vegna þess að eins og fram kom í ræðu hv. þm. Karls V. Matthíassonar að einmitt fjárfestingarþátturinn í framhaldi af því að fá til sín seiðin virðist vera sá þrándur í götu í landi okkar. Mjög dýrt fjármagn. Mjög erfitt að fá þolinmótt fjármagn til slíkrar starfsemi. Margra ára fjárfesting. Og það virðist vera eins og þar standi hnífurinn í kúnni þó svo menn séu með allar rannsóknir á þurru og geti í sjálfu sér farið í eldið.

Og hvað varðar t.d. lúðuna, sem við ættum að geta í sjálfu sér einhent okkur í að fara í eldi á, þá er dæmið þannig að stofnframlög til lúðueldisstöðva eru veitt í öðrum löndum og þess vegna eru seiðin seld til útlanda og skapa ekki þann virðisauka sem efni standa til eða efni gætu staðið til ef við værum t.d. með áframeldi á þessari tegund í landinu.

Jafnframt því að hugsa um og styrkja og setja peninga í rannsóknir á tegundum eins og hér er lagt til, að auknar verði rannsóknar á þorskeldi, þá verður að huga að því að eftirleikurinn verður að vera klár og vinna verður tillögur um það hvernig hann fer fram, vegna þess að þar er hinn sanni stóri virðisauki í dæminu. Manni finnst erfitt að horfa upp á það með tegund eins og lúðuna þar sem við erum í fararbroddi. Við erum með 80% af heimsframleiðslunni og erum þar af leiðandi í fararbroddi í klaki á þeirri tegund, en getum ekki farið í áframeldi fyrst og fremst af efnahagslegum ástæðum. Dýrir peningar og óþolinmóðir peningar í landinu. Þetta eru hlutir sem við verðum að horfa á.

Við verðum líka að horfa á stefnu okkar varðandi fiskeldismálin í samhengi við veiði á öðrum tegundum vegna þess að úti um allan heim og þar á meðal á okkar svæði í Norður-Atlantshafi hafa dýru tegundirnar, bolfiskurinn, látið undan. Þar er miklu minni veiði. Við höfum verið að rembast við að byggja upp þorskstofn okkar núna á annan áratug og ekkert gengur að heitið getur. Við erum enn þá í kringum 200 þús. tonnin. Þar er massi sem á að geta gefið okkur á fimmta hundrað þúsund tonn ef vel væri að málum staðið.

Ég vil því að eldismálin séu tekin í samhengi við heildarnýtinguna og áform okkar um að byggja upp hinar villtu fisktegundir þannig að þær geti og eigi möguleika á því að hafa hámarksafrakstur.

Þess vegna er sá þáttur þáltill. mjög mikilvægur sem leggur áherslu á þróun og möguleika í framtíðarfóðrun eldisfiska. Auðvitað berum við miklar vonir til þess að nota megi í ríkari mæli landafurðir af ýmsu tagi til að fóðra eldisfiska. Það hlýtur að vera höfuðmarkmið okkar að leggja áherslu á slíkar rannsóknir.