Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 17:25:17 (1270)

2002-11-11 17:25:17# 128. lþ. 26.8 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[17:25]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað mjög freistandi að taka hæstv. fjmrh. á orðinu og segja: Já, hækkum launin, hækkum bæturnar. Það er auðvitað alveg augljóst mál að menn mundu una betur þessum lágu skattleysismörkum ef lægstu laun í landinu væru 150 þús. kr. á mánuði og lægstu bætur frá Tryggingastofnun væru 120--130 þús. Þá væri ekki jafntilfinnanlegt að missa nokkra þúsundkalla af því í skatta eins og það er fyrir þá sem fá 70, 80 og kannski upp undir tæpar 90 þús. kr. á mánuði og eiga að draga fram af því lífið. Það er auðvitað um það sem þessi grundvallarspurning snýst. Hún er ekkert fjas um kerfið eða hvort menn skilja eða skilja ekki hvernig kerfi hlutfallsálagningar með persónufrádrætti virkar. Það gerum við fullkomlega.

Ég held að við séum öll það sjóuð í umræðum um þessi mál að það valdi ekki vandræðum. Það sem við erum áð ræða hér eru skattbyrðar og hvar þær lenda. Það er staðreynd sem ekki verður á móti mælt að þessir hlutir hafa þróast þannig hjá okkur á undanförnum 5--10 árum að nú greiða menn orðið umtalsverða skatta af hæstu bótum sem öryrkjar sem búa einir geta fengið, hæstu bótum sem aldraðir sem búa einir með heimilisuppbót. Menn greiða jafnvel orðið nokkra skatta af atvinnuleysisbótunum sem eru eins og allir vita forsmánarlega lágar hér á landi. Kannski verður enginn hópur jafnharkalega fyrir áföllum oft og tíðum hvað afkomu snertir eins og fólk með sæmilegar tekjur sem verður allt í einu atvinnulaust og dúndrar niður á þessar lágu bætur og á svo kannski að framfleyta fjölskyldu af þeim.

Sprettur umræðan af því að þessar bætur hafi hækkað svo mikið? Er það vegna þess að umræðan í þjóðfélaginu sé um hversu gríðarlegar kjarabætur hafi skilað sér til aldraðra og öryrkja eða atvinnulausra undanfarin ár? Nei, svo er ekki. Skattleysismörkin hafa ekki fylgt þróun mála í landinu. Þau eru ekki í takt við veruleikann. Þau eru ekki í takt við það sem það kostar að lifa. Þess vegna, þegar menn eygja kannski örlitla von og tekjurnar aukast um einhverja 10 eða 20 þúsundkalla, þá er það þeim mun sárgrætilegra að af þeim er strax tekið þetta mikið, upp undir 40% í skatt. Það er um þetta sem málið snýst, hæstv. fjmrh.