Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 17:34:04 (1274)

2002-11-11 17:34:04# 128. lþ. 26.8 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[17:34]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að hæstv. ráðherra ætlar ekkert að gera og það er ekkert í pípunum hjá ríkisstjórninni að hún ætli að beita sér fyrir einhverjum aðgerðum sem lækki skattbyrði lágtekjufólksins, það er alveg ljóst. Ég tel það ekki markvissar aðgerðir í þágu þeirra hópa sem ríkisstjórnin hefur verið að gera með því að skerða t.d. barnabæturnar frá því sem þær voru 1995. Þá voru greiddar ótekjutengdar barnabætur með börnum að 16 ára aldri. Nú er það einungis að 7 ára aldri. Ég tel það ekki markvissar aðgerðir hjá ríkisstjórninni að allt í einu sé fólk, sem er með tekjur undir lágmarkslaunum eins og lífeyrisþegar og lágtekjufólk, farið að greiða skatta sem það gerði ekki árið 1995 og sú skuli vera útkoman þegar menn skoða skattbyrðina að þetta tekjulægsta fólk sé með hæstu skattbyrðina. Það er hægt að setjast yfir það.

Ég spyr ráðherra um það að afnema eða greiða í eftirágreiðslu skatta sem lenda á fólki með tekjur undir 90 þús. kr. Það er ekki boðlegt ríkisstjórninni að láta það fólk sem ekki getur brauðfætt sig milli mánaða borga skatta af sínum litla lífeyri fyrir utan alla kostnaðarþátttökuna í heilbrigðiskerfinu sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir frá 1995. Viðbótarskatttekjur hins opinbera hafa verið hvorki meira né minna en 103 milljarðar á þeim tíma. Þar má rekja 65 milljarða til meiri landsframleiðslu og verðlagsbreytinga, 38 milljarða vegna hækkana á skattbyrði. Það er því alveg ljóst að á þessum tíma, frá 1995, hafa tekjur ríkissjóðs vaxið verulega. Engu að síður hefur skattbyrði láglaunafólks aukist miklu meira en var fyrir árið 1995 og ráðherrann stendur hér og segir við fólk að hann telji ekki ástæðu greinilega til þess að grípa til neinna sérstakra aðgerða til að lækka skatta á lágtekjufólki á sama tíma og hann mælir fyrir miklum og stórfelldum skattaívilnunum til þeirra sem meira hafa á milli handanna og það er auðvitað til skammar fyrir ríkisstjórnina.