Útsendingar Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 13:43:47 (1338)

2002-11-13 13:43:47# 128. lþ. 29.1 fundur 117. mál: #A útsendingar Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GE
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[13:43]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Um leið og ég tek undir fyrirspurn hv. þm. Kristjáns L. Möllers --- ég var í sömu ferð og hef ferðast víða um landið með fjárln. og heyrt þessar kvartanir frá norðausturhorninu --- tel ég nauðsynlegt að það komi fram að á síðustu árum hafa móttökuskilyrði batnað nokkuð víða, ekki síst fyrir þær kvartanir sem hér hafa verið bornar fram. Það er þó enn svo að á mörgum svæðum í hinu nýja Norðvesturkjördæmi, t.d. á svæðinu frá Bjarkarlundi að Flókalundi og á leiðinni út í Árneshrepp, er hvorki NMT-, GSM-símasamband eða móttökuskilyrði fyrir útvarp. Það ástand er óviðunandi og það er mikil nauðsyn að úr verði bætt. Til þess að taka þá undir orð hæstv. menntmrh. skil ég mætavel þá sem ekki vilja greiða fyrir lélega eða enga þjónustu. Ég vona að svo verði sem hæstv. ráðherra sagði.