Fjarnám í fámennum byggðum

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 14:41:18 (1369)

2002-11-13 14:41:18# 128. lþ. 29.6 fundur 274. mál: #A fjarnám í fámennum byggðum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[14:41]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. svörin og eins þeim hv. þm. sem hér lögðu orð í belg.

Ég tek undir það að margt mjög jákvætt og gott hefur verið gert af hálfu menntmrn. á sviði fjarkennslu á síðustu árum og missirum. Ég held að líka sé rétt að ítreka það að fjarfundabúnaður, þessi hefðbundni fjarfundabúnaður, hefur þá annmarka að fólk er bundið af stað og tíma. Ég hygg að það sé einungis millistig. Fjarnám í sinni bestu mynd hlýtur að felast í því að nemandinn geti stundað nám sitt á þeim tíma sem honum hentar og á þeim stað sem honum hentar, óbundinn af stað eða tíma.

Nokkrir skólar eru þegar byrjaðir, einkum á háskólastigi eins og hv. ráðherrann nefndi, að vista fyrirlestra og kennslugögn á netinu og bjóða nemendum sínum þannig að stunda námið af netinu án fjarfundabúnaðar, án þess að þurfa að sækja eitthvert skólahús, að geta stundað námið í tölvu heima á hvaða tíma sem er og geta verið í góðu sambandi við aðra nemendur í gegnum tölvu. Þetta hlýtur auðvitað að vera framtíðarmyndin. En þar til sá háttur kemst á er mikilvægt að grípa til aðgerða er jafna áðurgreindan mun landsmanna gagnvart aðgengi að fjarnámi. Grundvöllur þess er vitaskuld dreifikerfið eins og hér hefur verið nefnt. Ég þykist vita að hæstv. menntmrh. muni beita sér fyrir því að ýta á þá þróun sem hér hefur verið nefnd um að byggja upp dreifikerfið.

Við hljótum auðvitað að gera þá kröfu að dreifikerfið nái til allra landsmanna. Mér er kunnugt um einstaklinga víða í uppsveitum sem leggja stund á háskólanám, en geta það trauðla vegna þess að þeir ná ekki námsgögnunum.

Það minnir okkur á áform Landssímans um að koma hér upp bærilegu kerfi til allra landsmanna fyrir árslok 2002. Á því þarf að herða. Það hvarflar auðvitað að manni hvort ekki sé réttlætanlegt að verja hluta af söluhagnaði ríkissjóðs vegna sölu á bönkunum til þess að ljúka uppbyggingu þessa dreifikerfis sem væri líklega ein öflugasta byggðaaðgerð sem hægt væri að grípa til.