Aðbúnaður og öryggi á sjúkrahúsum

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 14:52:42 (1373)

2002-11-13 14:52:42# 128. lþ. 29.7 fundur 82. mál: #A aðbúnaður og öryggi á sjúkrahúsum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[14:52]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin. Af þeim má ráða að hæstv. ráðherra telji, og það er hans eindregna skoðun, að það eigi að virða hvíldartímaákvæði vinnuverndarlaganna jafnt fyrir lækna, unga lækna í starfsnámi sem aðra, og því ber auðvitað að fagna. En það sem mér fannst nokkuð vanta á hans mál var hvað hæstv. ráðherra ætlar að gera til þess að þeim ákvæðum verði þá framfylgt, þ.e. hvíldartímaákvæðum vinnuverndarlaganna.

Ég nefndi í máli mínu að það er enn svo að ungir læknar standa vaktir sólarhringum saman og eftir því sem ég hef spurnir af hefur því ekki verið breytt þannig að mér finnst hæstv. ráðherra þurfa að tala aðeins skýrar í þessu máli, hvað hann ætlar að gera til að beina því þá til sjúkrahúsanna að þau virði hvíldartímaákvæðin sem ekki virðist vera gert núna.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort sú nefnd sem sett var á laggirnar til að skilgreina hverjir væru læknar í starfsnámi hafi lokið störfum og hver er niðurstaða þeirrar nefndar. Ég vil nefna í þessu sambandi að skilgreining á því skiptir verulegu máli út af EES-tilskipuninni, og t.d. í Noregi og Svíþjóð þá er það eindregið með þeim hætti að ekki er beitt undanþáguákvæðum og skilgreining þar er þannig að allir læknar í starfsnámi njóta sama hvíldartímaréttar og aðrir. Og er það það sem ráðherrann er að fara hér, að þetta verði --- alveg burt séð frá þessari EES-reglugerð --- með þeim hætti að það verði alveg sami hvíldartímaréttur hjá ungum læknum eins og öðrum?

Lokaspurning mín er hvernig hann ætlar að fylgja þeirri skoðun sinni fram að ungir læknar njóti sömu hvíldartímaréttinda og aðrir og vonast ég til að ráðherrann ráðherrann tali eilítið skýrar um það.