Samgöngur milli lands og Vestmannaeyja

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 15:47:52 (1398)

2002-11-13 15:47:52# 128. lþ. 29.9 fundur 98. mál: #A samgöngur milli lands og Vestmannaeyja# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[15:47]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það hefur verið fróðlegt að taka þátt í umræðum um samgöngur til Vestmannaeyja. Ég tek að sjálfsögðu undir að það er mjög mikilvægt að þær séu greiðar.

Hv. þm. Hjálmar Árnason vakti athygli á því að margar ferjur væru falar og að við værum að missa af lestinni. Hann vildi að ég sendi strax leiðangur til að finna ferjur.

Það er mikið mál að kaupa ferju sem getur uppfyllt þær kröfur sem eru gerðar til einnar erfiðustu siglingaleiðar sem finnst í veröldinni. Ég tel að menn hlaupi ekki á einni helgi í það að kaupa ferjur við þær aðstæður. Ég valdi þann kostinn að setja af stað vinnuhóp sem ég gerði grein fyrir hér áðan og sá hópur er að skoða þessi mál. Það þarf að undirbúa þetta afskaplega vel og hugsa til framtíðar, bæði að tryggja að ferjusiglingar taki sem skemmstan tíma, fyllsta öryggis sé gætt og flutningsgetan, afkastageta ferjunnar, sé eins og þarf. Ég vil vekja athygli á því að það er ekki hægt að hlaupa til þótt einhverjar ferjur séu til sölu úti í veröld.

Að öðru leyti tek ég undir það með hv. þingmönnum sem hér hafa talað að við þurfum að tryggja þessar samgöngur. Það er auðvitað eðlilegt að notendur ferjunnar greiði fyrir þau afnot, alveg eins og við greiðum fyrir það að aka bílum okkar um þjóðvegina þótt við greiðum ekki vegatoll. Kostnaður við eldsneyti og afnot af bíl er náttúrlega greiddur af þeim sem ferðast. Allt er þetta í samhengi og þarf að meta þannig.

Að öðru leyti þakka ég bara fyrir það tækifæri sem ég hef fengið hér til að gera grein fyrir mikilvægi þess að við tryggjum samgöngur sem best til Eyja.